Dave Calhoun, forstjóri Boeing, mætti í gær til Washington DC til að svara spurningum frá rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Fjölskyldumeðlimir þeirra sem létust í flugslysum árin 2018 og 2019 hrópuðu á hann á meðan yfirheyrslan stóð yfir.
Forstjórinn sagði í gær að fyrirtækið hefði lært af fyrri mistökum og að ferlið fyrir starfsmenn til að greina frá vandamálum væri skilvirkt. Þingmenn sökuðu hann hins vegar um að gera ekki nóg til að koma í veg fyrir hefndaraðgerðir.
Calhoun varð forstjóri árið 2020 en tilkynnti í mars á þessu ári að hann myndi láta af störfum fyrir árslok. Hann hafði tekið yfir fyrirtækinu eftir að 346 farþegar létu lífið í kjölfar tveggja slysa árin 2018 og 2019.
Aðspurður um uppruna framleiðsluvandamálanna kenndi Calhoun uppsögnum og starfsmannaveltu á tímum heimsfaraldurs um og sagði að það hefði stuðlað að slysunum. „Mikið af þessu tengist óþjálfuðu vinnuafli. Þetta snýst allt um það, satt að segja.“
Nokkrir fjölskyldumeðlimir þeirra sem létust í slysunum héldu uppi myndum af ástvinum í salnum og ræddu meðal annars við blaðamenn fyrir utan þinghúsið.
„Ég flaug frá Englandi til Washington DC til að fá að heyra það í eigin persónu hvað forstjóri Boeing hefur að segja við öldungadeildina og heiminn um þær öryggisúrbætur sem hafa verið gerðar hjá fyrirtækinu,“ sagði Zipporah Kuria sem missti föður sinn í slysinu árið 2019.