Saga nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis hófst fyrir 15 árum. Á fyrstu árunum gaf oft á bátinn en undir styrkri stjórn frumkvöðulsins Guðmundar Fertram Sigurjónssonar var hindrunum rutt úr vegi og fyrirtækið óx og dafnaði.
Kerecis er nýsköpunarfyrirtæki, sem þróað hefur og framleitt vörur sem tengjast húð- og vefjaviðgerðum. Þekktasta varan er sáraroð, sem unnið er úr þorskroði og notað við meðhöndlun á opnum sárum. Hefur Kerecis einkaleyfi á framleiðslunni á öllum stærstu mörkuðum heimsins þ.m.t. í Bandaríkjunum, sem er langstærsti markaður fyrirtækisins.
Vöruþróun og mikill tekjuvöxtur Kerecis vakti sífellt meiri athygli utan landsteinanna, sem varð til þess að í sumar keypti danska lækningafyrirtækið Coloplast Kerecis á 180 milljarða króna. Kerecis er gott dæmi um fyrirtæki sem byggt er upp frá grunni með hugvitið að vopni.
„Ég var sannfærður um það frá fyrstu stundu að ég væri með góða hugmynd í höndunum," segir Guðmundur Fertram. „Verkefnið var í upphafi fjármagnað með mínum eigin fjármunum en svo kom Tækniþróunarsjóður með fé inn í félagið og svo Nýsköpunarsjóður, sem var ekki sjálfsagt á þessum tíma því þetta er skömmu eftir bankahrunið. Það var mjög framsýnt og áræðið hjá stjórnvöldum á þessum krepputíma að leggja meira fé í nýsköpun.“
Ítarlegt viðtal við Guðmund Fertram birtist í tímaritinu Áramótum, sem kemur út í fyrramálið. Netútgáfa blaðsins fór í loftið kl. 19.30 í kvöld og geta áskrifendur lesið viðtalið í heild hér.