„Ég skil mjög vel að kaupendur íbúðanna séu ósáttir. Auðvitað eru þeir það eftir allt sem á undan er gengið. Hér er þó alls ekki verið að snúa upp á hendurnar á fólki eða beita þvingunum. Þvert á móti er tilboðið sett fram með hagsmuni kaupendanna að leiðarljósi en ekki félagsins eða kröfuhafa.“
Þetta segir Ásgeir Kolbeinsson, stjórnarformaður Gerplustrætis 2-4 ehf., í samtali við Viðskiptablaðið um þá stöðu, sem kaupendur íbúða í fjölbýlishúsi við Gerplustræti í Mosfellsbæ, eru í eftir að uppbygging íbúðanna fór 300 milljónir fram yfir áætlaðan kostnað. Fimmtán mánuðir eru síðan afhenda átti íbúðirnar en framkvæmdum er ekki enn lokið.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og einnig fjallaði Stundin um framkvæmdina fyrir tæpu ári síðan.
Félagið Gerplustræti 2-4, sem stóð fyrir framkvæmdinni, er að sögn Ásgeirs í raun komið í greiðsluþrot og staðan sé því ákaflega þröng.
Ásgeir fyrir hönd stjórnar félagsins sendi á dögunum bréf til kaupendanna þar sem þeim er greint frá því að ef þeir ljúki við afsalsgreiðslu samkvæmt kaupsamningi þá séu veðhafar tilbúnir að aflétta veðskuldum af eigninni. Að öðrum kosti muni þeir mögulega tapa innborgun sinni þegar félagið fari í þrot þar sem veðin séu í eigu kröfuhafa.
„Þetta er staðan og hún er sannarlega bölvuð og erfið. En eins og ég tek fram í bréfinu þá hefur fasteignaverð hækkað umtalsvert frá því að gengið var frá kaupunum eða um 50 þúsund krónur á fermetra. Ef ég væri að ganga erinda kröfuhafa kæmi sér best fyrir þá að félagið yrði úrskurðað gjaldþrota tafarlaust. Þeir myndu þá eignast íbúðirnar og gætu selt þær aftur á markaðsvirði og þannig fengið meira upp í kröfur sínar. Það myndi hins vegar þýða að kaupendur myndu tapa öllu því fé sem þeir hafa lagt fram. Og í mínum huga er það algjörlega óásættanleg niðurstaða,“ segir Ásgeir, sem tók við stjórnarformennsku í Gerplustræti 2-4 ehf. í sumar þegar ljóst var að félagið var komið í öngstræti.
„Ég er persónulega tengdur einum kaupenda sem vissi að ég átti örlítinn hlut í félaginu. Hann hefur samband við mig og biður mig um að kanna stöðu mála og það er í kjölfar þess að ég kem inn í stjórnina. Þá var ég ekki meðvitaður um hversu staðan var slæm en síðan þá hefur þetta verið mikil þrautaganga. Félagið er nú þegar aðili að tveimur dómsmálum og þrátt fyrir að íbúðirnar væru seldar á markaðsvirði þá myndi það rétt duga til að greiða allar þær kröfur sem á félaginu hvíla,” segir Ásgeir Kolbeinsson.