Í apríl síðastliðnum lýsti forsætisnefnd Alþingis þeirri afstöðu sinni að Viðskiptablaðinu yrði veittur aðgangur að greinargerð setts ríkisendurskoðenda í málefum Lindarhvols ehf., án allra takmarkana, þann 25. þess mánaðar.

Sjónarmið Lindarhvols og Ríkisendurskoðunar voru gerð forsætisnefnd kunn í erindum sem bárust nefndinni um miðjan apríl í kjölfar þess að forsætisnefnd upplýsti Lindarhvol og Ríkisendurskoðun um ákvörðun sína.

Í minnisblaði sem lögmaðurinn Flóki Ásgeirsson sendi forsætisnefnd Alþingis í byrjun maí er tekin afstaða til sjónarmiða Lindarhvols og Ríkisendurskoðunar til aðgangs Viðskiptablaðsins að greinargerðinni. Snemma árs í fyrra réði nefndin Flóka sem óháðan lögmann til að fara yfir málið og kanna hvort Viðskiptablaðið ætti rétt á aðgangi að greinargerðinni.

Lindarhvolur sendi með stuttu millibili tvö erindi til forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar, þar sem afstaða félagsins til afhendingar greinargerðarinnar ítrekuð. Vísað er til efnislegs rökstuðnings úrskurða úrskurðanefndar um upplýsingamál (ÚNU) þar sem lagt er til grundvallar að í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga felist sérstakt þagnarskylduákvæði. Á þeirri forsendu telji félagið Alþingi ekki vera heimilt að verða við beiðni Viðsiptablaðsins.

Í minnisblaðinu kemur fram að í þeim úrskurðum ÚNU sem vísað sé til í erindinu byggist þagnarskyldan á því að umrætt gagn hafi verið sent hlutaðeigandi stjórnvaldi til umsagnar á grundvelli lagaskyldu. Þá segir að í þessum úrskurðum hafi ÚNU talið það forsendu þess að gagn teljist undanþegið aðgangsrétti að fyrir liggi sérstök ákvörðun setts ríkisendurskoðanda um að undanskilja það aðgangsrétti. Þar sem greinargerðin hafi ekki verið afhent Alþingi á grundvelli lagaskyldu og ekki liggi fyrir sérstök ákvörðun setts ríkisendurskoðanda um að undanskilja það aðgangsrétti hafa þessir úrskurðir ÚNU ekki þýðingu fyrir umfjöllun forsætisnefndar um málið.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.