Flestar áfengisauglýsingar sem sjást í Bandaríkjunum innihalda áminningu um að drekka vörurnar með ábyrgum hætti. Áfengisiðnaðurinn þar í landi er engu að síður háður fólki sem drekkur meira en heilbrigðisyfirvöld mæla með.

Á vef WSJ er vitnað í rannsókn frá Bernstein sem segir að fimmtungur fullorðinna sjái fyrir rúmlega 90% af allri áfengissölu í Bandaríkjunum.

Sala hjá þessum iðnaði hefur þó dregist saman undanfarin ár vegna heilsufarsáhyggna neytenda og aukinnar lögleiðingar kannabis. Aukin notkun lyfja eins og Ozempic og hugarfarsbreytingar meðal kynslóða hafa einnig átt þátt í minnkandi áfengisneyslu.

Kevin Turner er 39 ára gamall maður frá Orlando en hann segir í samtali við WSJ að á virkum dögum drekki hann nokkur glös af áfengi við heimabarinn sinn, sem inniheldur tugi skoskra viskíflaskna, rommtegunda og annarra líkjöra. Um helgar hittir hann svo vini sína á barnum í þrjá eða fjóra bjóra.

„Fólk veit að áfengi er slæmt fyrir það, en það getur líka verið ávanabindandi. Fólk skilur það. Þetta er eitur. Þetta er ljúffengt eitur, en það er algjört eitur,“ segir Kevin.

Margir sem störfuðu innan áfengisgeirans segjast vera meðvitaðir um slíka viðskiptavini en segja að markaðssetningin sé ekki beind til þeirra. Ann Mukherjee, fyrrum yfirmaður hjá Pernod Ricard, segir að áfengisiðnaðurinn myndi frekar kjósa að vera ekki háður þessum minnihluta þar sem það skaði í raun orðspor fyrirtækjanna.