Hagkaup opnaði í dag nýja vefverslun með áfengi á vefsíðunni veigar.eu en síðan er samstarfsverkefni Hagar Wine og Hagkaups. Viðskiptavinir Hagkaups geta því keypt áfengi á netinu og sótt það í verslun Hagkaups í Skeifunni.
Hagkaup opnaði í dag nýja vefverslun með áfengi á vefsíðunni veigar.eu en síðan er samstarfsverkefni Hagar Wine og Hagkaups. Viðskiptavinir Hagkaups geta því keypt áfengi á netinu og sótt það í verslun Hagkaups í Skeifunni.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið hafi verið búið að skoða málið vel og vandlega undanfarið ár og á ekki von á öðru en að ákvörðun Hagkaupa standist alla skoðun.
„Við fórum af stað fyrir alvöru með þetta fyrir einu og hálfu ári síðan þegar Costco opnaði á áfengissölu til almennings. Í framhaldi af þeirri opnun stígur þáverandi dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, fram og fullyrðir opinberlega að þessi tegund verslunar sé lögleg.“
Hann segir að í framhaldi af því hafi stjórnendur Hagkaupa farið betur yfir málið og niðurstaðan var sú að dómsmálaráðherra hafði rétt fyrir sér. Fyrirkomulagið yrði þannig að netverslunin yrði unnin í samstarfi við erlent dótturfélag.
Tími fólks dýrmætur
„Við erum aðallega í þessu til að bjóða upp á nýja þjónustu og á síðustu árum erum við að sjá það að tími fólks er dýrmætur. Við þekkjum það úr matvöruhlutanum. Fyrir 15-20 árum síðan fannst fólki sjálfsagt að eyða tveimur eða þremur klukkutímum inni í eldhúsi að undirbúa kvöldmat. Það hvarflar hins vegar ekki að neinum manni í dag, hvað þá hjá yngri kynslóðinni sem er að stíga sín fyrstu skref að reka heimili.“
Hann segir fólk sé sífellt að leita leiða til að fara betur með tímann sinn og nefnir til að mynda þjónustur eins og Eldum rétt og Wolt.
„Ef þú ert að versla í matinn og þig vantar léttvínsflösku og við getum boðið upp á þá þjónustu að þú getir kippt henni með úr þjónustuborðinu á leiðinni út og þarft ekki að fara sérferð í sérvínverslun til að sækja flöskuna þá finnst okkur það aukin og flott þjónusta fyrir okkar viðskiptavini.“