Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, segir áfengisverð hjá ÁTVR vera 15-20% of hátt, þrátt fyrir mikla skattlagningu áfengis á Íslandi.
Hann tekur dæmi um vinsælar bjórtegundir sem seldar eru bæði hjá Sante og ÁTVR. Þannig sé 33cl flaska af belgíska bjórnum Stella Artois seld á 389 krónur hjá ÁTVR en 308 krónur hjá Sante, sem gerir 26% verðmismun. Ítalski bjórinn Peroni sé auk þess 22% ódýrari hjá Sante. Að lokum nefnir hann 25% verðmismun á Brut Nature kampavíni, sem verðlagt er á 5.600 krónur hjá Sante en á tæpar sjö þúsund krónur hjá ÁTVR.
„Þess má geta að vörunúmerunum fjölgar nánast í hverjum mánuði. Þannig munum við bæta við fleiri bjórtegundum og verður þá verðmismunurinn jafnvel enn meiri.“
Sjá einnig: „Þetta rugl er náttúrulega bara búið“
Arnar veltir því fyrir sér af hverju ÁTVR megi ekki flytja inn vörur erlendis frá en megi á sama tíma kaupa vörur af heildsölum.
„Þegar sett eru lög um að ÁTVR megi ekki flytja inn vörur, hver ætli hafi verið með puttann á því að slíkar kvaðir hafi verið settar? Það er mjög áhugavert að hugsa út í það hver græðir á frelsinu og hver græðir á helsinu. Að mínu mati er einokunarverslun ekki nein sérstök tímaskekkja núna, ég einfaldlega tel að slíkt óyndisfyrirkomulag hafi aldrei haft rétt á sér. Sú samkeppni sem verið hefur hér á markaði nú í eitt ár, ætti að hafa sannað að frelsið hyglir mörgum á kostnað fárra en helsið fáum á kostnað margra. Þeir fáu eru klárlega núverandi birgjar ÁTVR.“
Hann segir þetta fyrirkomulag vera óheppilegt. „Ímyndum okkur ef það væri ríkiseinokunarverslun með Mango Chutney. Heildsalar þyrftu bara að semja við einn aðila og sá aðili væri með þá yfirlýstu stefnu að skipta sér ekki af því verði sem er í boði. Aðstoðarforstjóri ÁTVR hefur látið hafa það eftir sér að einokunarstofnunin skiptir sér ekki af verði, það sé ákveðið af heildsölum. Menn geta velt fyrir sér hvort slík afstaða sé í þágu neytenda eða birgja“
Lægra verð og betra vöruúrval
„Það eina sem skiptir máli í dag eru þær vörur sem neytendum standa til boða og hvað þær kosta. Við erum með meira úrval og lægra verð.“ Arnar segir að frá opnun Santewines fyrir einu ári síðan, hafi hann lagt upp með að bjóða upp á lægra verð en ÁTVR. „Moretti bjórinn okkar, sem er líklega sá vinsælasti, er tiltölulega ódýr í samanburði við sambærilega bjóra hjá ÁTVR.“
Hann bætir við að netverslanir hafi þá kosti að það er ekkert þak á hilluplássi. „Ég er ekki að segja að netverslun sé einungis með kosti og enga galla. En þegar kemur að vöruvali þá eru kostirnir þeir að þú getur verið með endalaust úrval.“
Lyf og sígarettur í ÁTVR?
Arnar veltir því fyrir sér af hverju það sé ekki lagt til að selja lyf og sígarettur í verslunum ÁTVR. „Ef einokunarverslun er hagfelld fyrir neytendur, til hvers erum við þá að reka Samkeppniseftirlitið? Af hverju eru vörur eins og lyf og sígarettur ekki líka í verslunum ÁTVR, fyrst að þetta er svona gott fyrirkomuleg að selja þær vörur sem má ekki auglýsa í einokunarverslun ríkisins? Ég skil ekki afhverju ÁTVR og Ölgerðin leggja þetta ekki til.“
Arnar bendir á að nú sé verið að skrá Ölgerðina, einum af hans samkeppnisaðilum, á Aðalmarkað Kauphallarinnar, en Ölgerðin hefur minnst á að rekstrarforsendur gætu breyst ef til þess kæmi að einokunarverslunin yrði aflögð.
„Andri, forstjóri Ölgerðarinnar, hefur tjáð sig vera fylgjandi valfrelsi neytenda en þó með þeim skilyrðum að hans hagsmunir yrðu tryggðir fyrst með afnámi auglýsingabanns. Sante hefur aldrei gert kröfu um að auglýsingabann yrði aflagt en manni finnst sérkennilegt að samkeppnisaðilar telji að við ættum ekki að fá að selja okkar vörur af því að þeir megi ekki auglýsa sínar, ég bara skil ekki samhengið.“