Afgangur af þjónustujöfnuði á þriðja fjórðungi þessa árs var tæplega 141 milljarður króna en samkvæmt Hagstofu Íslands hefur afgangurinn bara einu sinni verið meiri. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd var því ríflega 64 milljarðar á þriðja ársfjórðungi.
Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka á þokkaleg háönn ferðaþjónustunnar drjúgan þátt í þessum myndarlega afgangi af þjónustuviðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi.
Alls nam þjónustuútflutningur rúmum 319 milljörðum á tímabilinu en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu voru tæpir 179 milljarðar.
„Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á þriðja fjórðungi vó upp halla á fyrri helmingi ársins. Útlit er þó fyrir einhvern halla á utanríkisviðskiptum á árinu í heild,“ segir í greiningu bankans sem Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka skrifar.
Í fjórðungnum var afgangur vegna neyslu á ferðalögum tæplega 107 milljarðar og afgangur á millilandaviðskiptum tengdum samgöngum og flutningi nærri 64 milljarðar. Á móti var halli á flestum öðrum helstu undirliðum þjónustujafnaðarins.
„Ferðaþjónustan hefur endurheimt fyrri sess sem stærsta einstaka útflutningsgreinin eftir bakslag í faraldrinum. Alls hefur greinin skilað nærri 33% af heildar útflutningstekjum hagkerfisins undanfarna fjórðunga ef horft er á 12 mánaða hlaupandi heildartölu. Á sama tíma skiluðu tvær helstu vöruútflutningsgreinarnar, sjávarútvegur og álframleiðsla, hvor um sig um það bil 15% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins,” skrifar Jón Bjarki.
Halli á vöruskiptum var 76 milljarðar á greiðslujafnaðargrunni á tímabilinu og þar með 6 milljörðum minni en á sama tíma í fyrra.
Þá breytingu má þakka 7% aukningu í vöruútflutningi milli ára en á móti jókst vöruinnflutningur um 2% á sama tíma.
„Á fyrri helmingi ársins var halli á vöru- og þjónustuviðskiptum alls rúmlega 56 ma.kr. Afgangurinn á þriðja fjórðungi vó þann halla upp og gott betur. Samanlagt var þannig rúmlega 8 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er þó talsvert lakari útkoma en á síðasta ári þegar afgangurinn á fyrstu þremur fjórðungum ársins nam nærri 61 ma.kr. og vegur óhagstæðari þjónustujöfnuður þyngst í þeirri þróun,” skrifar Jón Bjarki.
Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka ber að halda því til haga að fjórða stoðin undir útflutningstekjur, hugverkaiðnaður, er í stöðugri sókn og skiptir orðið verulegu máli fyrir heildar tekjuöflun þjóðarbúsins erlendis frá.
Hagstofan birtir ekki með beinum hætti heildargögn um slíkar útflutningstekjur enda nær geirinn yfir ýmsar greinar bæði á sviði þjónustu sem og vöruframleiðslu, allt frá framleiðslu á lyfjum og lækningavörum til tölvuleikja.