Afhendingar nýrra Tesla-rafbíla á heimsvísu drógust saman um 13% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt fréttamiðlinum WSJ. Þar segir að vaxandi neikvæð viðbrögð neytenda gegn vörumerkinu og forstjóranum Elon Musk hafi haft mikið að segja um þróunina.

Tesla afhenti 336.681 rafbíl á síðasta ársfjórðungi en væntingar greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir 396.960 bílum.

Hlutabréf Tesla lækkuðu um 4% í dag eftir birtingu uppgjörsins en gengi rafbílaframleiðandans hefur lækkað um 45% frá áramótum.

Þátttaka Musk í ríkisstjórn Donalds Trumps og stuðningur hans við hægriflokka í Evrópu hefur gert Tesla að skotmarki pólitískra mótmæla. Neytendur víðs vegar um heiminn hafa þá einnig sniðgengið vörumerkið.

Sala Tesla í Kína dróst einnig saman um 49% í febrúar en náði sér þó örlítið í mars þegar Tesla byrjaði að selja endurhannaða útgáfu af Model Y. Fyrirtækið seldi alls 78.828 bíla í Kína í mars en það er 11% samdráttur milli ára.