Ferlið við að koma á 220kv Suðurnesjalínu 2 hefur staðið yfir í um tvo áratugi. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir ófullnægjandi fyrir íbúa og atvinnulíf að vera einungis með eina 132 kV línu, Suðurnesjalínu 1, og segir að það hafi í för með sér mikla áhættu fyrir íbúa og fyrirtæki sem starfa á Suðurnesjum.

„Það sannaðist enn og aftur núna í byrjun janúar, þegar rafmagn fór af í þrjár klukkustundir á öllu Suðurnesjasvæðinu, að afhendingaröryggi er ábótavant.“

Suðurnesjalína 2 liggur í gegnum fjögur sveitarfélög, byrjar í Hafnarfirði, liggur í gegnum Voga og Reykjanesbæ og kemur á stuttum kafla inn fyrir landamörk Grindavíkurbæjar. Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavíkurbær hafa veitt framkvæmdarleyfi miðað við fyrsta valkost Landsnets, sem er loftlína samhliða Suðurnesjalínu 1.

Sveitarfélagið Vogar hafnaði hins vegar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi og vill sveitarstjórn Voga að lagður verði jarðstrengur fremur en loftlína. Í bókun sveitarfélagsins frá desember 2021 segir meðal annars að of mikil sjónmengun skapist af loftlínunni sem Landsnet vilji reisa. Jarðstrengur sé öruggari kostur í ljósi jarðhræringa sem hafa verið á svæðinu að undanförnu.

Eftirspurn eftir raforku hefur aukist hraðar á Suðurnesjum en á öðrum stöðum á landinu.

Mikill vöxtur á Suðurnesjum

Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Í Reykjanesbæ hefur orðið mest fjölgun á landsvísu eða um 50% á síðustu sjö árum, og hefur eftirspurn eftir raforku aukist hraðar á Suðurnesjum en á öðrum stöðum á landinu. Í skýrslu Frontier Economics frá því í vor, sem samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera, var sýnt fram á að samfélagslegt tap vegna tapaðra tækifæra á svæðinu hleypur á milljörðum.

„Þessar töpuðu tekjur eru meðal annars vegna þess að við getum ekki útvegað fyrirtækjum nægt rafmagn. Hér er mikið af fyrirtækjum sem þurfa mikla raforku og fleiri fyrirtæki sem myndu vilja starfa á svæðinu en vantar raforkuna til starfseminnar,“ segir Kjartan.

Nánar er fjalla um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.