Þýski tískurisinn Hugo Boss skilaði betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi en markaðurinn hafði gert ráð fyrir. Gott kostnaðareftirlit var lykilhlekkur í þeim árangri að sögn félagsins sem staðfesti jafnframt afkomuspá sína fyrir árið 2025, þrátt fyrir að lýsa rekstrarumhverfinu sem krefjandi vegna óvissu um tolla.

Gengi hlutabréfa félagsins hækkuðu um 6,8% í fyrstu viðskiptum eftir útgáfu uppgjörsins. Hlutabréfaverðið hefur þó lækkað um meira en 13% frá því í byrjun árs.

Sala á fyrsta ársfjórðungi nam 999 milljónum evra, sem er lítils háttar samdráttur frá 1,01 milljarði evra á sama tíma í fyrra. Það var þó umfram væntingar markaðsaðila sem gerðu ráð fyrir 974 milljóna evra sölu.

Hagnaður eftir skatta nam 35 milljónum evra, samanborið við 38 milljónir evra í fyrra, sem þó var verulega umfram væntingar sem gerðu aðeins ráð fyrir 23 milljónum evra í hagnað.