Rekstrarhagnaður Eimskips fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi verður á bilinu 43,5–47 milljónir evra, eða um 6,0-6,5 milljarðar króna, samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir apríl og maí ásamt nýrri spá fyrir júní. Til samanburðar var EBITDA-hagnaður félagsins á öðrum fjórðungi 2021 um 29,7 milljónir evra (aðlagað fyrir áhrifum af sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið á síðasta ári). Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Þá áætlar Eimskip að rekstrarhagnaður (EBIT) verði á bilinu 28,5-32,0 milljónir evra, eða um 3,9-4,4 milljarðar króna, sem er nærri tvöfalt hærra en á sama tímabili í fyrra.
„Ýmsar ástæður eru fyrir aukningu EBITDA en helstu drifkraftarnir eru góð frammistaða í alþjóðlegu flutningsmiðluninni sem nýtur áfram góðs af markaðsaðstæðum á alþjóðamörkuðum og mjög góð nýting í siglingakerfum félagsins,“ segir í tilkynningunni.
„Þá er afkoma af Trans-Atlantic flutningum mun betri en á sama tímabili síðasta árs vegna góðs magns og flutningsverða sem endurspegla mikla eftirspurn eftir flutningum yfir Atlantshafið. Að auki hefur magn í innflutningi til Íslands verið sterkt.“
Flutningafélagið segir horfur fyrir komandi mánuði almennt góðar þrátt fyrir mikla óvissu í alþjóðlegu efnahagsumhverfi og mögulegum áhrifum vaxandi verðbólgu á heimsviðskipti.
Eimskip tekur fram að uppgjör fyrir júní og annan ársfjórðung 2022 séu enn í vinnslu og því geti niðurstöður tekið breytingum fram að birtingu þann 18. ágúst næstkomandi.