Skarpur viðsnúningur var í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja á síðasta ári og var rekstrarhagnaður sem hlutfall af tekjum hærri en árin 2018 og 2019. Ferðamálastofa hefur birt fjárhags- og rekstrarupplýsingar atvinnugreina og fyrirtækja í ferðaþjónustugreinum fyrir árið 2021 í Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir (EBITDA) af tekjum samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum var 16,3% árið 2021 hefur ekki verið hærra frá árinu 2015.
Þá var hlutfall hagnaðar eftir skatta ferðaþjónustufyrirtækja, að flugrekstri undanskildum, 4,0% í fyrra. Til samanburðar var sama hlutfall 2,2% árið 2019 og 3,2% árið 2018.
Slá verður varnagla við að tekjur í íslenskri ferðaþjónustu í fyrra voru töluvert lægri en árin fyrir Covid. Einnig ber að setja verulegan fyrirvara þar sem fjármagnsgjöld voru fryst árið 2021 sem leiðir af að nettóhagnaður inniheldur ekki greiðslu þeirra.
Þó Ferðamálastofa gerir fyrirvara um að ekki séu allir ársreikningar fyrir árið 2021 aðgengilegur þá er ljóst að gífurlegur viðsnúningur var á rekstri ferðaþjónustufyrirtækja frá árinu 2020. EBITDA hlutfall í ferðaþjónustu var neikvætt um 4,2% árið 2020 og tap sem hlutfall af tekjum var 24%.
Heildarfjöldi fyrirtækja í gagnagrunni Ferðamálastofu er um 2.500 en ekki eru öll fyrirtækin komin með 2021 ársreikninga í gagnagrunn Creditinfo, sem Ferðamálastofa nýtir sér, og sum hafa hætt starfsemi.