Samkvæmt tölum Hagstofunnar var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 155,2 milljarða króna árið 2022, eða sem nemur 4,1% af vergri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var afkoman neikvæð um 277,5 milljarða króna árið 2021, eða 8,5% af vergri landsframleiðslu ársins.

Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 304,5 milljarða frá fyrra ári, eða um 22,6%, á meðan útgjöld hins opinbera jukust um 182,2 milljarða króna, eða um 11,2%.

Heildartekjur ríkissjóðs jukust þá um 27,8% í fyrra samanborið við 2021 og námu alls 1.215,8 milljörðum króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 11% og námu alls 481,8 milljörðum króna.

Skattar á tekjur og hagnað voru 42,6% af heildartekjum hins opinbera en þeir eru stærsti tekjuliður hins opinbera. Í heildina jukust skatttekjur hins opinbera um 19,9% á síðasta ári sem er mikil aukning frá 2021 þegar þær jukust aðeins um 7,2% á milli ára.

Samneysluútgjöld hins opinbera, það er að segja launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu jukust um 10,8% á milli ára og námu 993,9 milljörðum króna.