Hótelkeðjan Keahótel skilaði 1,2 milljóna króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári, samanborið við hálfs milljarðs tap árið 2020. Tekjur félagsins jukust um meira en 150% á milli ára og námu 2,9 milljörðum, sem er þó nærri 40% minna en árið 2019 en kórónuveirufaraldurinn litaði reksturinn verulega á síðustu tveimur árum.
Samstæðan rekur níu hótel ásamt tilheyrandi veitingarekstri víðsvegar um landið á síðasta ári. Félagið rekur hótelin Apótek, Borg, Skugga, Storm, Sand, Reykjavík Lights sem staðsett eru í Reykjavík, Kea á Akureyri og Hótel Kötlu í Vík í Mýrdal. Í byrjun þessa árs tók hótelkeðjan við rekstri Sigló Hótels og tengdrar starfsemi.
Sjá einnig: Keahótel tekur við rekstri Sigló Hótels
Laun og annar starfsmannakostnaður nam ríflega 1,1 milljarði króna en meðalfjöldi stöðugilda var 130 talsins.
Eignir Keahótela voru bókfærðar á 1,3 milljarða í lok síðasta árs. Eigið fé félagsins var neikvætt um 127 milljónir.
Keahotels var í eigu K acquisition fram að fjárhagslegri endurskipulagningu í desember 2020 en það var lýst gjaldþrota mánuði síðar. Í kjölfarið eignaðist Landsbankinn, einn stærsti kröfuhafinn, 35% hlut í hótelkeðjunni.
Sömu eigendur og áttu K acquisitions lögðu Keahótels til nýtt hlutafé og eiga nú 65% hlut í gegnum félagið Prime Hotels ehf. K acquisitions var stofnað utan um kaup á Keahotels árið 2017. Stærstu hluthafar félagsins voru Pt Capital með 50% hlut og JL Properties og Erkihvönn með 25% hlut hvort um sig.