Afkoman Ölgerðarinnar á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsárs félagsins, sem lauk 31. maí sl., var „aðeins undir áætlunum“. Drykkjavöruframleiðandinn hefur lækkað afkomuspá sína fyrir árið, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Afkoman Ölgerðarinnar á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsárs félagsins, sem lauk 31. maí sl., var „aðeins undir áætlunum“. Drykkjavöruframleiðandinn hefur lækkað afkomuspá sína fyrir árið, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður Ölgerðarinnar eftir skatta nam 482 milljón á fjórðungnum, samanborið við 963 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Ölgerðin hefur fært afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 niður um 400 milljónir króna. Fyrri spá gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 5,5 – 5,9 milljarðar króna en nú gera stjórnendur Ölgerðarinnar ráð fyrir að EBITDA fjárhagsársins verði á bilinu 5,1 – 5,5 milljarðar.

Félagið segir að uppfærð afkomuspá skýrist meðal annars af því að áætlaður kostnaður vegna undirbúningsvinnu og markaðssetningar Collab í Evrópu hefur verið hækkaður um 100 milljónir frá fyrri áætlun. Nú sé gert ráð fyrir að kostnaður við verkefnið verði 300 milljónir.

Litast af fækkun ferðamanna og minni neyslu

Velta Ölgerðarinnar jókst um 2% frá sama tímabili í fyrra og nam 11,2 milljörðum króna á fjórðungnum. Framlegð jókst um 7% og nam 3,8 milljörðum en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 9% og nam tæplega 1,1 milljarði.

„Ársfjórðungurinn litast af samdrætti í seldum lítrum til hótela, veitingastaða og skyndibitastaða sem skýrist aðallega af fækkun ferðamanna og minni neyslu,“ segir í afkomutilkynningu Ölgerðarinnar.

„Rekstrarumhverfi margra viðskiptavina Ölgerðarinnar hefur orðið erfiðara að undanförnu og má m.a. rekja það til hækkana á aðföngum, launahækkana í síðustu kjarasamningum og minni sölu. Viðskiptakröfur Ölgerðarinnar eru samt sem áður nokkuð traustar og er ekki útlit fyrir stór áföll.“

Ölgerðin segist hafa á undanförnum vikum verið að loka samningum við rótgróna veitingastaði sem muni stuðla að aukinni markaðshlutdeild og aukinni sölu á veitingamarkaði næstu misseri.

Vakin er athygli á að sölu- og markaðskostnaður jókst um 217 milljónir, eða 32%, á milli ára. Það skýrist m.a. af aukinni samkeppni og nýjum viðskiptavinum. Þá hafi nýjar tegundir virknidrykkja verið settar á markað á tímabilinu, þar á meðal Mist Uppbygging og Collab Hydro. Þá er 71 milljón af auknum sölu- og markaðskostnaði rakinn til útflutnings á Collab.

„Eins og við skýrðum frá við birtingu síðasta ársuppgjörs er að hægja á þeim mikla vexti sem verið hefur síðustu ár og sú þróun heldur áfram. Ölgerðin býr að afar sterkum vörumerkjum og við munum ekki hvika frá öflugum markaðsaðgerðum okkar og kröftugu umbóta- og þróunarstarfi, samhliða aðhaldi í rekstri. Með tilliti til þess að við erum að fjárfesta í útflutningi á Collab þá gera stjórnendur ráð fyrir svipaðri niðurstöðu og á síðasta ári sem var það besta í sögu fyrirtækisins,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

„Við beinum sjónum okkar enn frekar að vöruþróun með stofnun nýrrar deildar vaxtar og þróunar og höldum áfram á þeirri leið að bjóða neytendum upp á nýjungar og sækjum fram af þeim krafti sem einkennt hefur Ölgerðina. Þá gengur rekstur Iceland Spring afar vel. Við stöndum þétt við bakið á viðskiptavinum okkar, sem sumir hverjir eru að upplifa erfiðleika, og vitum sem er öll él styttir upp um síðir. Í útflutningi eru spennandi tímar framundan. Móttökur við Collab í Danmörku hafa verið góðar og það gefur okkur aukið sjálfstraust í sókn á aðra markaði.“