Rekstrarfélög í eigu Skeljar fjárfestingarfélags skiluðu samtals 952 milljóna króna EBITDA-hagnaði á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt óendurskoðuðum stjórnendauppgjörum. Félagið segir í afkomuviðvörun að afkoman hafi verið nokkuð umfram áætlanir sem gerðu ráð fyrir 547 milljóna króna EBITDA-hagnaði hjá rekstrarfélögunum á tímabilinu.

Skel segir að áætluð EBITDA fyrir allt árið 2023 nemi 3.970 milljónum og félögin hafi því náð um 25% af áætlun ársins eftir fyrsta ársfjórðung sem hafi sögulega verið lakari en annar og þriðji ársfjórðungur.

„Árið 2023 fer vel af stað og afkoma á fyrsta fjórðungi hjá rekstrarfélögunum er ánægjuleg. Taka verður tillit til þess að verkföll og annað fólu í sér áskoranir, sem leyst var úr með myndarbrag,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar.

„Farið var í vinnu við stefnumörkun rekstrarfélaga sl. ár þar sem áherslan var að þar færu sjálfstæð fyrirtæki, söludrifin og með skýra stefnu og aðgreiningu á markaði. Það er ánægjulegt að sú vinna sé að skila sér í að afkoma félaganna er umfram áætlanir fyrstu þrjá mánuði ársins.“

Umrædd rekstrarfélög sem Skel fer með yfirráð yfir eru samstæða Skeljungs, sem keypti nýlega Klett, samstæða Orkunnar, sem inniheldur m.a., Lyfjaval og Löður, sem og Gallon.

Í dag var svo greint frá því að Orkan hefði selt allar einingar sínar sem snúa að verslunarrekstri til Heimkaupa, sem eru í 33% eigu Skeljar.

Hagnaður af skráðum hlutabréfum Skeljar nam 232 milljónum á fyrsta fjórðungi. Helstu skráðar hlutabréfastöður í lok fjórðungsins voru tæplega 3 milljarða króna eignarhlutur í VÍS og 2,5 milljarða hlutur í fasteignafélaginu Kaldalóni. Skel stækkaði hlut sinn í Kaldalóni í mars fyrir um 330 milljónir króna.

Keyptu í Focalpay og selja í móðurfélagi Magns

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um ‏þá keypti Skel nýlega 10% hlut í sænska fjártæknifyrirtækinu Focalpay fyrir um 200 milljónir íslenskra króna. Focalpay, sem stýrt er af Birki Veigarssyni, hefur kerfi sem sameinar söluferli og greiðslumiðlun í eitt kerfi.

Skel undirritaði einnig nýjan kaupsamning í febrúar vegna sölu á 48% hlut sínum í Orkufélaginu, móðurfélagi Magn SP/f í Færeyjum. Söluverðið nemur tæplega 3 milljörðum íslenskra króna. Skel segir að málið sé nú í meðferð hjá samkeppnisyfirvöldum í Færeyjum og búist er við niðurstöðu og greiðslu kaupverðs á fyrri árshelmingi.