Afkoma og tekjur örflöguframleiðandans Nvidia meira en tvöfölduðust á öðrum ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra en félagið seldi örflögur fyrir 30 milljarða Bandaríkjadali á fjórðungnum. Mun þaða hafa verið í samræmi við væntingar greiningaraðila vestanhafs en töluvert skrum átti sér stað á markaði í gær í tengslum við uppgjör félagasins.
Hagnaður félagsins á öðrum fjórðungi nam 16,6 milljörðum dala sem samsvarar um 2.290 milljörðum króna á gengi dagsins. Samkvæmt uppgjörinu er tekjuspá félagsins óbreytt og býst Nvidia við því að selja örflögur fyrir um 32,5 milljarða dala á þriðja fjórðungi.
Í uppgjörinu er einnig tekið fram að afkomuspá þriðja ársfjórðungs sé óbreytt og áætlar félagið að tekjur verði um 32,5 milljarðar dala á þriðja fjórðungi.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru stóru tæknifyrirtækin, Alphabet, Microsoft og Amazon, drifkrafturinn að baki velgengni Nvidia á fjórðungnum en örflögur félagsins eru leiðandi þegar kemur að gervigreind. Alphabet, móðurfélag Google, greindi nýverið frá því að hafa eytt um 12 milljörðum dala í þróun gervigreindar á öðrum ársfjórðungi og býst félagið við því að eyða sambærilegum upphæðum á komandi fjórðungum.
Gríðarleg eftirvænting var eftir uppgjöri Nvidia í gær og söfnuðust hluthafar saman meðal annars á börum í fjármálahverfi New York borgar.
Uppgjörið birtist eftir lokun markaða í gær en töluverð velta hefur verið síðustu daga með valréttasamninga tengdum bréfum Nvidia. Samkvæmt WSJ voru margir mjög bjartsýnir á hækkun í kjölfar uppgjörsins og voru kaupréttir að ganga manna á milli á genginu 140 dölum í gær.
Fjárfestar voru þó ekki jafn ánægðir með uppgjörið og búist var við og féll gengi Nvidia um 6% í utanþingsviðskiptum í nótt. Ef fram fer sem horfir mun gengi félagsins opna í 119 dölum á eftir.