Upp­gjör Arion banka fyrir annan árs­fjórðung 2025 var veru­lega um­fram væntingar, að mati greiningar­fyrir­tækisins AKKUR. Þetta kemur fram í ný­birtri greiningu fyrir­tækisins.

Greiningar­fyrir­tækið, sem áður hafði greint frá jákvæðum væntingum eftir viðvörunina þann 15. júlí, segir nú að af­koman hafi farið langt fram úr bæði eigin spám og meðaltali greiningaraðila og að undir­liggjandi rekstur bankans reynist mun sterkari en áður var talið.

Sam­kvæmt AKKUR voru hreinar vaxta­tekjur bankans um­tals­vert yfir væntingum og marktækur vaxta­munur skilaði sér í hæsta vaxta­tekju­stigi sem greiningar­fyrir­tækið hefur áður séð í fjórðungs­upp­gjöri bankans.

Vax­tatekjurnar voru tæp­lega 17% hærri en á fyrsta árs­fjórðungi.

Markaðurinn hafði haft áhyggjur af lækkandi verðbólgu og áhrifum þess á vaxta­mun, en niður­stöðurnar sýna að Arion heldur mark­miði sínu um vaxta­mun í kringum 3% og mat AKKUR er að vaxta­munur ársins í heild verði meiri en í fyrra.

AKKUR bendir engu að síður á að frum­varp um kíló­metra­gjald gæti haft áhrif á vísitölu neyslu­verðs og þar með vaxta­stig en greint verður frá þeim áhrifum síðar.

Rekstrar­kostnaður var um 650 milljónum króna undir væntingum AKKUR, og leiðrétt fyrir ein­skiptis­kostnaði í fyrra nam hækkunin á milli ára einungis 2,0%.

Það leiddi til þess að kostnaðar­hlut­fall (af kjarna­tekjum) lækkaði um 9,6 pró­sentu­stig frá fyrra ári sem er um­tals­verð bæting sem styrkir arð­semi rekstrarins.

Verðmæti Arnarlands fært upp

Eignar­hlutur Arion banka í Land­ey ehf., félagi sem heldur utan um Arnar­landið í Garða­bæ, hafði áður hækkað í bókum bankans.

Fjár­muna­tekjur voru einnig yfir væntingum en AKKUR leggur lítið vægi á þann þátt þar sem hann telst sveiflu­kenndur og utan kjarna­reksturs. Greiningin leggur megin­áherslu á af­komu af vaxta­tekjum, þjónustu og kjarna­starf­semi.

Virðis­rýrnun var heldur minni en gert hafði verið ráð fyrir og AKKUR ítrekar mat sitt um að hún sé lík­lega of­metin um einn til tvo milljarða króna. Þó er ekki tekin af­staða til þess hvenær mögu­legar bak­færslur vegna fyrri rýrnunar kunni að eiga sér stað.

Eini neikvæði þátturinn sem AKKUR bendir á er að af­koma dóttur­félagsins Varðar hafi ekki náð væntingum greiningaraðilans.

Áréttað er þó að fjórðungurinn hafi í sjálfu sér verið góður, væntingarnar hafi ein­fald­lega verið orðnar háar eftir sterkan rekstur undan­farið.

Miðað við gengið við dags­lok á upp­gjörs­degi nemur markaðsvirði Arion banka 244 milljörðum króna, að teknu til­liti til eigin bréfa.

Það jafn­gildir 7,6-földum hagnaði hlut­hafa síðustu tólf mánaða og P/B hlut­falli upp á 1,21, sam­kvæmt út­reikningum AKKUR.

Niður­staðan í greiningu AKKUR er af­dráttar­laus: upp­gjörið sýnir að rekstur bankans er sterkari en áður var talið og mun greiningar­fyrir­tækið hækka horfur fyrir næstu misseri í samræmi við ný gögn.