Uppgjör Arion banka fyrir annan ársfjórðung 2025 var verulega umfram væntingar, að mati greiningarfyrirtækisins AKKUR. Þetta kemur fram í nýbirtri greiningu fyrirtækisins.
Greiningarfyrirtækið, sem áður hafði greint frá jákvæðum væntingum eftir viðvörunina þann 15. júlí, segir nú að afkoman hafi farið langt fram úr bæði eigin spám og meðaltali greiningaraðila og að undirliggjandi rekstur bankans reynist mun sterkari en áður var talið.
Samkvæmt AKKUR voru hreinar vaxtatekjur bankans umtalsvert yfir væntingum og marktækur vaxtamunur skilaði sér í hæsta vaxtatekjustigi sem greiningarfyrirtækið hefur áður séð í fjórðungsuppgjöri bankans.
Vaxtatekjurnar voru tæplega 17% hærri en á fyrsta ársfjórðungi.
Markaðurinn hafði haft áhyggjur af lækkandi verðbólgu og áhrifum þess á vaxtamun, en niðurstöðurnar sýna að Arion heldur markmiði sínu um vaxtamun í kringum 3% og mat AKKUR er að vaxtamunur ársins í heild verði meiri en í fyrra.
AKKUR bendir engu að síður á að frumvarp um kílómetragjald gæti haft áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með vaxtastig en greint verður frá þeim áhrifum síðar.
Rekstrarkostnaður var um 650 milljónum króna undir væntingum AKKUR, og leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði í fyrra nam hækkunin á milli ára einungis 2,0%.
Það leiddi til þess að kostnaðarhlutfall (af kjarnatekjum) lækkaði um 9,6 prósentustig frá fyrra ári sem er umtalsverð bæting sem styrkir arðsemi rekstrarins.
Verðmæti Arnarlands fært upp
Eignarhlutur Arion banka í Landey ehf., félagi sem heldur utan um Arnarlandið í Garðabæ, hafði áður hækkað í bókum bankans.
Fjármunatekjur voru einnig yfir væntingum en AKKUR leggur lítið vægi á þann þátt þar sem hann telst sveiflukenndur og utan kjarnareksturs. Greiningin leggur megináherslu á afkomu af vaxtatekjum, þjónustu og kjarnastarfsemi.
Virðisrýrnun var heldur minni en gert hafði verið ráð fyrir og AKKUR ítrekar mat sitt um að hún sé líklega ofmetin um einn til tvo milljarða króna. Þó er ekki tekin afstaða til þess hvenær mögulegar bakfærslur vegna fyrri rýrnunar kunni að eiga sér stað.
Eini neikvæði þátturinn sem AKKUR bendir á er að afkoma dótturfélagsins Varðar hafi ekki náð væntingum greiningaraðilans.
Áréttað er þó að fjórðungurinn hafi í sjálfu sér verið góður, væntingarnar hafi einfaldlega verið orðnar háar eftir sterkan rekstur undanfarið.
Miðað við gengið við dagslok á uppgjörsdegi nemur markaðsvirði Arion banka 244 milljörðum króna, að teknu tilliti til eigin bréfa.
Það jafngildir 7,6-földum hagnaði hluthafa síðustu tólf mánaða og P/B hlutfalli upp á 1,21, samkvæmt útreikningum AKKUR.
Niðurstaðan í greiningu AKKUR er afdráttarlaus: uppgjörið sýnir að rekstur bankans er sterkari en áður var talið og mun greiningarfyrirtækið hækka horfur fyrir næstu misseri í samræmi við ný gögn.