Þýski skórisinn Birkenstock velti 456 milljónum evra, jafnvirði 66 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi og jókst veltan um 22% á milli ára.
Tekjur Birkenstock reyndust umfram væntingar greiningaraðila sem höfðu spáð tekjum upp á 440 milljónir evra, samkvæmt FactSet.
Hagnaður nam 52,5 milljónum evra á fjórðungnum. Félagið stefnir á að bæta framlegðina á næsta ári með því að nýta framleiðsluaðstöðuna betur. Spáir fyrirtækið 15-17% tekjuvexti á næsta ári.
Gengi bréfa Birkenstock hefur hækkað um 11% síðastliðna viku og um meira en fjórðung á árinu. Stendur gengið í 60,4 dölum á hlut þegar þessi frétt er skrifuð.
Fyrirtækið var skráð í Kauphöllina í New York í október á síðasta ári og var útboðsgengið 46 dalir á hlut. Samkvæmt útboðsgenginu var virði fyrirtækisins um 8,6 milljarðar dala sem samsvarar ríflega 1200 milljörðum íslenskra króna.
Hins vegar lækkuðu hlutabréf félagsins um 13% á fyrsta viðskiptadegi og var dagslokagengið 40 dalir, sem gerir markaðsvirði upp á 7,7 milljarða dala. Fjármálafyrirtæki og greiningaraðilar höfðu varað við gengislækkuninni, en illa gekk að selja hluti til fjárfesta vestanhafs í útboðinu.