Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við HÍ, segir að stjórnvöld þurfi að huga að hlutverki ferðaþjónustunnar í íslenska hagkerfinu. Ferðaþjónusta sé láglaunagrein í hálaunalandi og þessi mótsögn komi nú fram m.a. í þeim verkföllum sem nú hafa skollið á, segir Gylfi í aðsendri grein í Vísbendingu.

Í greininni ræðir hann um spennu í þjóðarbúinu sem hefur leitt til eftirspurnarverðbólgu hér á landi en í Evrópu skýrist há verðbólga fremur af hækkun kostnaðar.

Gylfi, sem hættir á næstu dögum í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir ástæðu vaxtahækkunar í vikunni megi fremur rekja til verri verðbólguhorfa fyrir árið 2023 heldur en að hún hafi mælst 9,9% í janúar. Þá fari verðbólga án húsnæðis vaxandi og verðhækkanir ná til sífellt fleiri þátta vísitölu neysluverðs.

„Peningastefnan ber að venju hitann og þungann af því að hemja innlenda eftirspurn,“ segir Gylfi. Peningastefnan hafi þó ekki náð að draga nægilega úr eftirspurn í hagkerfinu. Vöxtur innflutnings gæti orsakað frekari gengisveikingu krónunnar. Þá sé áfram of mikil spenna á vinnumarkaði, þó aðflutningur erlends vinnuafls hafi hjálpað.

„Ferðaþjónusta er láglaunagrein í hálaunalandi!“

Undir lok greinarinnar vekur hann athygli á stærri þáttum í hagkerfinu sem huga þarf að til lengri tíma. „Í fyrstu skal á það bent að hagkerfi sem hefur einhver bestu lífskjör í heimi stefnir á að byggja hagvöxt á vexti ferðaþjónustu sem kallar á vinnuafl sem getur keppt við vinnuafl í ferðaþjónustu erlendis.“

Hann segir að unnið hafi verið úr þessum vanda með innflutningi á vinnuafli sem fái oftast greitt samkvæmt lágum launatöxtum.

„Ferðaþjónusta er láglaunagrein í hálaunalandi! Þessi mótsögn kemur nú fram m.a. í þeim verkföllum sem nú hafa skollið á.“

Gylfi segir tilraunir stjórnmálanna árið 2014 að leggja „hóflegt gjald“ á erlenda ferðamenn hafi runnið út í sandinn vegna mótmæla ferðaþjónustunnar. Eftir standi skattaívilnanir sem þess í stað örvi vöxt greinarinnar.

„Ferðaþjónusta er góð aukagrein, góð byggðastefna, en afleit grein til að búa til verðmæt störf og góð lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni.“

Byrgja þurfi brunninn áður en barnið er dottið ofan í

Gylfi telur líklegt að vöxtur ferðaþjónustunnar hafi í för með sér að þúsundir erlendra ríkisborgara flytji til landsins á ári hverju. Þá gætu Íslendingar á móti flutt til útlanda í leit að betri störfum.

„Vegna ört breytilegrar samsetningu þjóðarinnar er mikilvægt að huga að því hvernig börnum innflytjenda, fyrstu kynslóðar Íslendingum, vegnar. Ýmislegt bendir til þess að fyrstu kynslóðar Íslendingum vegni verr í skólakerfinu en börnum innfæddra.“

Huga þurfi að þessari þróun, m.a. til að reyna að komast hjá því að stór hópur einstaklinga finnist sem þeir hafi skert tækifæri í þjóðfélaginu. Einnig sé mikilvægt að kanna hver áhrif aðflutnings vinnuafls verði á atvinnuhorfur ófaglærðra Íslendinga, einkum ungra karlmanna.

„Í þessum málum sem öðrum er æskilegt að stjórnvöld horfi til lengri tíma, sjái vandamál fyrir og byrgi brunninn áður en barnið er dottið ofan í.“