Stefnir hefur afnumið gengismun á kaupum og sölu í sjóðum sínum í gegnum netbanka og app.
„Það hefur verið viðtekin venja að hafa gengismun milli kaupa og sölu í sjóðum. En þegar við horfum til samkeppnisaðila okkar erlendis þá hafa þeir verið að afnema þennan kostnaðarlið. Þetta snýst í stuttu máli um að einfalda hlutina fyrir viðskiptavinum okkar,“ segir Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis.
Samhliða afnámi gengismunar hefur Stefnir fellt niður lágmarksáskrift sem hefur um árabil verið 5.000 krónur og lágmarks fjárhæð við kaup í sjóðum. Jón segir ákvörðunina um að fella niður lágmarksfjárhæð bæði í áskriftum og einstökum viðskiptum sérstaklega miða að ungu fólki, enda hafi sjálfvirknivæðing leitt af sér aukna hagkvæmni í rekstri.
„Við sjáum mikinn áhuga hjá ungu fólki sem vill byrja smátt. Það er e.t.v. ekki hagkvæmt fyrir okkur að vinna mikið með lágar fjárhæðir, en við tókum þessa ákvörðun með hagsmuni viðskiptavina í leiðarljósi. Það er skemmtilegra fyrir unga fólkið að geta brotið fjárhæðina niður eins og því hentar, og ef einhver vill fjárfesta fyrir 3.000 krónur í þremur sjóðum, þá segjum við bara: gjörðu svo vel,“ segir Jón og bætir við:
„Ég get farið í búð og keypt einn pastapakka á þúsund krónur, það er enginn sem bannar mér það. Með sama hætti bönnum við ekki ungu fólki að fjárfesta fyrir lægri upphæðir í okkar sjóðum.“
Hann segir afnám lágmarksáskriftar og niðurfellingu á lágmarksfjárhæð við kaup í sjóðum Stefnis geta leitt til þess að ungt fólk fari fyrr að fylgjast með markaðnum og þannig kveikt neista sem gæti seinna meir orðið að enn stærri neista.
Aukið frelsi og hindranalaust aðgengi sé einnig til þess fallið að auðvelda foreldrum að spara fyrir sín börn, með auknu valfrelsi í fjárhæð og minni tilkostnaði, á sjálfvirkan hátt í appi eða heimabanka.
„Það sem gerist í kjölfarið er að ungi strákurinn eða stelpan fer þá til dæmis að fylgjast með þremur sjóðum og spyr sig af hverju einn sjóður hækkar og hinn lækkar. Þar með skapast forvitni og aukin fræðsla,“ útskýrir Jón.
„Í enda dagsins erum við að tala um fjármálasnillinga framtíðarinnar,“ bætir hann við að lokum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.