Fjölskyldufyrirtækið Set ehf. á Selfossi sérhæfir sig í fjölbreyttri starfsemi á lagnasviði en fyrirtækið var sett í söluferli í síðasta mánuði. KPMG hefur umsjón með söluferlinu og er stefnt á sölu félagsins á þessu ári eða því næsta.
Bergsteinn Einarsson, forstjóri Sets, segir að verið sé að skoða það að selja fyrirtækið í hlutum. Í fyrsta lagi er fasteignahluti fyrirtækisins og byggingaverkefni í Árborg á eldri lóðum sem fyrirtækið á, í öðru lagi er það reksturinn á Íslandi og í þriðja lagi framleiðslufyrirtæki í eigu Sets í Þýskalandi.
Saga fyrirtækisins er áratugalöng en upphafið má rekja til sjöunda áratugar síðustu aldar. Vestmannaeyingurinn Einar Elíasson, faðir Bergsteins, settist að á Selfossi undir lok sjötta áratugarins og hóf atvinnurekstur í byggingastarfsemi þar árið 1964. Eftir að síldveiðar hrundu á árunum 1967-1968 kólnaði byggingamarkaðurinn og þá ákvað hann að stofna Steypuiðjuna. Tíu árum síðar var Set stofnað.
Áföll í efnahagslífinu hafa nokkrum sinnum komið upp frá því að fyrirtækið tók til starfa en Bergsteinn - sem hóf störf hjá fyrirtækinu fyrir hálfri öld - segir slík áföll aldrei hafa stöðvað þau. Oftar en ekki hafi óstöðugt efnahagsumhverfi og ytri aðstæður fleygt fyrirtækinu fram.
Hann vísar í því samhengi til nokkurra atburða. Fyrst megi nefna niðursveiflutímabilið undir lok sjöunda áratugarins sem leiddi til þess að Steypuiðjan var stofnuð. Því næst megi nefna aðlögun að EES-samningnum 1990 þar sem erlendir aðilar fengu aðgang að stærri útboðum hér á landi. Fyrirtækið réðst þá í gæðaverkefni til að endurskipuleggja sig þar sem Bergsteinn var hvað fremstur í flokki.
Að lokum má nefna fjármálakreppuna en velta fyrirtækisins lækkaði um 50% á einu ári. Þrátt fyrir áfallið ákvað fyrirtækið að fara í útrás ári seinna og stofnaði félag utan um framleiðslu einangraðra stálröra í Þýskalandi.
„Þannig að mótlæti hefur alltaf valdið framförum og það er kjarninn í gæðastarfinu sem við fórum í þarna 1989-90. Kjarninn í vinnu við gæðakerfi og altæka gæðastjórnun er að nýta sér það sem aflaga fer til sóknar, að komast yfir alls konar vandamál og nýta allt sem fer úrskeiðis, laga það til þess að ná framförum. Stöðugum umbótum. Það er svolítið sérstakt við vinnu í gæðakerfum að það byggist svolítið á því að fjalla jákvæðan hátt um það neikvæða,“ segir Bergsteinn.
Nánar er rætt við Bergstein í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.