Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, stendur frammi fyrir verulegum áskorunum við að auka útgjöld til varnarmála í kjölfar þingkosninganna í Þýskalandi.
Nú þegar talið hefur verið upp úr kjörkössunum er ljóst að Kristilegir demókratar sigruðu kosningarnar með tæplega 29% atkvæða. Kosið var um 630 sæti á þýska þinginu, Bundestag, og fær flokkurinn 208 sæti á þinginu.
Vill breyta stjórnarskránni
Merz hefur sagst vilja endurskoða skuldareglu Þýskalands, sem fest var í stjórnarskrá árið 2009 og snýr að því að takmarka lántöku ríkissjóðs og halda skuldahlutfallinu við 35% af vergri landsframleiðslu.
Hann hefur viljað gera þetta til að fjármagna fjárfestingar í samgöngu- og fjarskiptainnviðum og auka útgjöld til varnarmála.
Þau áform eru nú í hættu eftir að þjóðernisflokkurinn AfD og harðlínu-vinstri flokkurinn Die Linke hafa tryggt sér nægilegan fjölda þingsæta til að koma í veg fyrir að stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga.
AfD hlaut 20,8% atkvæða og 152 sæti á þinginu og Die Linke hlaut 8,77% atkvæða og 64 þingsæti.
Til þess að hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni þarf tvo þriðju hluta atkvæða. AfD og Die Linke eru með samtals 210 þingsæti sem gerir nákvæmlega einn þriðja hluta atkvæða.
AfD styður aukin útgjöld til varnarmála en er alfarið á móti því að fjármagna vopnakaup Úkraínu og er á móti breytingum á skuldareglunni. Þá hefur Merz útilokað beina samvinnu við AfD sem oft er kenndur við hið „öfga-hægri“.
Það þarf ekki að koma á óvart að Die Linke nálgist málið með allt öðrum hætti. Flokkurinn styður breytingar á skuldareglunni en er alfarið á móti auknum útgjöldum til varnarmála. Þá er Die Linke andsnúinn auknum stuðningi Þýskalands við Úkraínu með vopnakaupum.
Því er Merz í ákveðinni klemmu hvað þetta varðar, sérstaklega í ljósi þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað eftir því að Evrópuríkin innan Atlantshafsbandalagsins verji auknum fjármunum til varnarmála.
Merz hefur sagst geta fjármagnað tillögurnar með því að örva efnahagsvöxt og skera niður í velferðarkerfinu, en hagfræðingar hafa efasemdir um að það nægi.