Strengur Holding ehf. hagnaðist um 5,6 milljarða króna á síðasta ári, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær . Strengur er meirihlutaeigandi SKEL Fjárfestingafélags (áður Skeljungur) með 50,06% hlut. Hefur félagið verið prímusmótorinn í breyttum áherslum félagsins sem snúast um að færa hefðbundinn rekstur félagsins úr olíusölu yfir í að vera fjárfestingafélag.

Er Strengur var sífellt að stækka eignarhlut sinn í Skeljungi sagði félagið að stefnt væri að sölu eigna og greiðslu til hluthafa Skeljungs í formi arðs eða kaupa á eigin bréfum. Efnahagsreikningur Skeljungs myndi minnka töluvert á næstu þremur árum. Benti Strengshópurinn á að hlutverk Skeljungs myndi breytast á næstu árum vegna orkuskipta í samgöngum þar sem bensínbílar væru á útleið. Breytingarnar fælu, eins og fyrr segir, í sér að færa hefðbundinn rekstur félagsins úr olíusölu yfir í að vera fjárfestingafélag.

Hluti þeirra breytinga hefur þegar komið til framkvæmda. Í lok síðasta árs var greint frá því að ríflega 12 milljarða króna söluhagnaður hefði myndast hjá Skeljungi við sölu fasteignasafns félagsins og sölu olíufélagsins P/F Magn í Færeyjum. Stærsti kaupandi fasteignanna var Kaldalón, en Strengur er stærsti hluthafi Skeljungs og Kaldalóns. Varð þar með ljóst að áform Strengs um sölu eigna og greiðslu söluandvirðis til hluthafa, sem m.a. átti að nýta til að greiða lán sem tekin voru til að fjármagna yfirtöku Strengs á Skeljungi, voru farin að ganga eftir.

Að Streng stóðu RES 9 ehf., sem átti 38% hlut, M25 Holding ehf. sem átti jafn stóran hlut og RPF ehf. sem átti eftirstandandi 24% hlut. RPF hefur þó verið afskráð en félagið var í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarins Arnars Ævarssonar. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær áttu þeir í lok síðasta árs 20% hlut í Streng í gegnum félagið IREF ehf., en Þórarinn Arnar situr í stjórn SKEL Fjárfestingafélags.

RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, auk breskra fjárfesta. M25 Holding er svo að meginhluta í eigu 365 hf. sem er í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur. Eiginmaður Ingibjargar, Jón Ásgeir Jóhannesson, er stjórnarformaður SKEL Fjárfestingafélags og Strengs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .