Ársfundur Vestfjarðarstofu var haldinn í gær, þriðjudaginn 14. júní, á Ísafirði. Yfirskrift fundarinnar var „Vestfirðir í vörn eða sókn?“. Á fundinum kynntu, meðal annarra, Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafar og verkefnastjórnunar, og Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar hjá Artica Finance, áform um stofnun Þuríðar sem er nýr fjárfestingasjóður sem sérhæfir sig í fjárfestingum á Vestfjörðum.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Valdimar gruninn að hugmyndinni um stofnun sjóðsins vera fyrirséðar vinsældir Vestfjarða sem ferðamannastaður, bæði innanlands og utan landssteinanna, en Vestfirðir fengu á dögunum viðurkenningu frá Lonely Planet sem besti áfangastaðurinn árið 2022. Þar að auki sjá þeir tækifæri í fyrirhugðum samgöngubótum á Vestfjörðum en þegar að vegur um Gufudalssveit og Dynjandisheiði verður tilkominn er kominn grunnur að hringvegi um Vestfirðina. Þá verður leiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar álíka löng og frá Reykjavík til Akureyrar.
Aðspurður um markmið sjóðsins segir Valdimar það vera að skoða þá fjárfestingakosti sem eru í ferðaþjónustunni á Vestfjörðum hvort sem það er í hóteluppbyggingu eða afþreyingu fyrir ferðamenn. „Við sjáum fyrir okkur að samhliða þessari miklu uppbyggingu sem er í fiskeldi á Vestfjörðum séu mikil tækifæri líka í ferðaþjónustunni og að heilt yfir séu Vestfirðirnir að leggja í ákveðna sókn. Markmiðið er í raun að taka þátt í þeirri uppsveiflu“ segir Valdimar.
Sjóðurinn hefur ekki formlega verið stofnaður en áform eru um stofnun hans á næstu vikum. Þá vonast þeir til að vera með allt að 12 milljarða fjárfestingagetu, bæði með eigið fé og lántöku. „Við vonumst til að að baki sjóðnum verði breiður hópur fjárfesta, bæði af Vestfjörðum og aðrir stórir stofnanafjárfestar.“

Valdimar og Runólfur ásamt öðrum gestum ársfundar Vestfjarðarstofu.