Til­lögur um að rýmka fjár­magns­kröfur bandarískra banka í því skyni að efla ríkis­skulda­bréfa­markaðinn gætu óvænt aukið kerfis­lega áhættu með því að hvetja til enn meiri skuld­setningar vogunar­sjóða, sam­kvæmt Wenxin Du, pró­fessor í fjár­málum við Harvard Business School.

Eftir að ríkis­stjórn Donalds Trump til­kynnti um hækkun tolla í byrjun apríl skapaðist órói á bandaríska ríkis­skulda­bréfa­markaðnum, sem minnti margt á ástandið í mars 2020 þegar markaðurinn lamaðist í skugga heims­far­aldursins.

Enn og aftur vöknuðu spurningar um hvernig svo djúpur og stór markaður geti raskast með svo skjótum hætti og hvort hefðbundnir miðlarar, svo sem bankar og verðbréfa­miðlarar, hafi smám saman gefið eftir fyrir vogunar­sjóðum sem nú gegna sí­fellt stærra hlut­verki í við­skiptum og verð­myndun.

Eitt þeirra úrræða sem nú eru til skoðunar af hálfu eftir­lit­saðila í Bandaríkjunum er að rýmka hið svo­kallaða viðbótar­fjár­magns­hlut­fall (Supplementary Le­vera­ge Ratio, SLR), sem kveður á um hversu miklu eigið fé bankar þurfa að halda á móti heildar­eignum sínum, óháð því hversu áhættu­samar þær eignir eru.

Meðal þess sem rætt er um er að undan­skilja bandarísk ríkis­skulda­bréf og tengd tryggð við­skiptalán (repos) úr reikni­grunni hlut­fallsins í þeirri von að bankar verði viljugri til að auka um­svif sín á markaðnum.

Í að­sendri grein í Financial Times í dag segir Wenxin Du, pró­fessor í fjár­málum við Harvard Business School, að breytingin gæti haft þveröfug áhrif. Í stað þess að styrkja stöðu banka­kerfisins gæti hún ýtt undir aukna áhættu­hegðun vogunar­sjóða, sem þegar stunda um­fangs­mikil skuld­sett við­skipti á skulda­bréfa­markaðnum.

Vogunar­sjóðir hafa verið að stunda svo­kallað basis tra­de. Þar kaupa þeir ríkis­skulda­bréf með láns­fé frá bönkum og verja sig gegn vaxta­breytingum með því að selja fram­tíðar­samninga (e. fu­tures) sem byggja á sömu bréfum.

Mark­miðið er að græða á verðmuninum á milli markaðsverðs skulda­bréfsins og verðs samningsins.

Í maí höfðu vogunar­sjóðir tekið skort­stöðu í fram­tíðar­samningum á ríkis­skulda­bréfum upp á 1.100 milljarða dala. Það er aukning frá 990 milljörðum í byrjun apríl og rúm­lega tvöföldun frá því fyrir heims­far­aldur.

Á sama tíma jukust lán frá verðbréfa­miðlurum gegn ríkis­skulda­bréfum um 100 milljarða dala, án þess að merki séu um að það dragi úr þeirri þróun.

Það sem veldur áhyggjum er að breyting á reglum um fjár­magns­kröfur bankanna gæti gert þetta enn auðveldara og ódýrara og því hvatt til enn frekari skuld­setningar sjóðanna.

Þótt mark­mið reglu­verks­breytingarinnar sé að hvetja banka og verðbréfa­miðlara til virkara hlut­verks í skulda­bréfa­við­skiptum þá eru áhrifin mest á þann hluta starf­seminnar sem felst í fjár­mögnun við­skipta­vina, einkum vogunar­sjóða.

Wenxin Du bendir á að eftir áfallið sem varð þegar Silicon Vall­ey Bank féll árið 2023, að hluta til vegna taps á ríkis­skulda­bréfum í hækkandi vaxta­um­hverfi, sé varfærni í eigin við­skiptum með langtíma­skulda­bréf rökrétt stefna hjá við­skipta­bönkum.

Því sé ólík­legt að slökun á SLR-reglum hvetji þá sér­stak­lega til að auka skulda­bréfa­eign sína. Þess í stað muni hún lík­lega stuðla að enn frekari út­vistun áhættu til vogunar­sjóða sem stóla á lána­línur bankanna.

Du telur að rýmkun á fjár­magns­kröfum banka­kerfisins, einkum ef hún felur í sér undanþágur fyrir ríkis­skulda­bréf og tryggð við­skiptalán, geti ómeðvitað grafið undan þeim stöðug­leika sem stefnt er að.

Þannig gæti breyting sem ætlað er að styrkja markaðinn og gera hann seigari í áföllum í raun aukið viðkvæmni hans – með því að ýta enn frekar undir skuld­setningu og kerfis­leg tengsl.