Tillögur um að rýmka fjármagnskröfur bandarískra banka í því skyni að efla ríkisskuldabréfamarkaðinn gætu óvænt aukið kerfislega áhættu með því að hvetja til enn meiri skuldsetningar vogunarsjóða, samkvæmt Wenxin Du, prófessor í fjármálum við Harvard Business School.
Eftir að ríkisstjórn Donalds Trump tilkynnti um hækkun tolla í byrjun apríl skapaðist órói á bandaríska ríkisskuldabréfamarkaðnum, sem minnti margt á ástandið í mars 2020 þegar markaðurinn lamaðist í skugga heimsfaraldursins.
Enn og aftur vöknuðu spurningar um hvernig svo djúpur og stór markaður geti raskast með svo skjótum hætti og hvort hefðbundnir miðlarar, svo sem bankar og verðbréfamiðlarar, hafi smám saman gefið eftir fyrir vogunarsjóðum sem nú gegna sífellt stærra hlutverki í viðskiptum og verðmyndun.
Eitt þeirra úrræða sem nú eru til skoðunar af hálfu eftirlitsaðila í Bandaríkjunum er að rýmka hið svokallaða viðbótarfjármagnshlutfall (Supplementary Leverage Ratio, SLR), sem kveður á um hversu miklu eigið fé bankar þurfa að halda á móti heildareignum sínum, óháð því hversu áhættusamar þær eignir eru.
Meðal þess sem rætt er um er að undanskilja bandarísk ríkisskuldabréf og tengd tryggð viðskiptalán (repos) úr reiknigrunni hlutfallsins í þeirri von að bankar verði viljugri til að auka umsvif sín á markaðnum.
Í aðsendri grein í Financial Times í dag segir Wenxin Du, prófessor í fjármálum við Harvard Business School, að breytingin gæti haft þveröfug áhrif. Í stað þess að styrkja stöðu bankakerfisins gæti hún ýtt undir aukna áhættuhegðun vogunarsjóða, sem þegar stunda umfangsmikil skuldsett viðskipti á skuldabréfamarkaðnum.
Vogunarsjóðir hafa verið að stunda svokallað basis trade. Þar kaupa þeir ríkisskuldabréf með lánsfé frá bönkum og verja sig gegn vaxtabreytingum með því að selja framtíðarsamninga (e. futures) sem byggja á sömu bréfum.
Markmiðið er að græða á verðmuninum á milli markaðsverðs skuldabréfsins og verðs samningsins.
Í maí höfðu vogunarsjóðir tekið skortstöðu í framtíðarsamningum á ríkisskuldabréfum upp á 1.100 milljarða dala. Það er aukning frá 990 milljörðum í byrjun apríl og rúmlega tvöföldun frá því fyrir heimsfaraldur.
Á sama tíma jukust lán frá verðbréfamiðlurum gegn ríkisskuldabréfum um 100 milljarða dala, án þess að merki séu um að það dragi úr þeirri þróun.
Það sem veldur áhyggjum er að breyting á reglum um fjármagnskröfur bankanna gæti gert þetta enn auðveldara og ódýrara og því hvatt til enn frekari skuldsetningar sjóðanna.
Þótt markmið regluverksbreytingarinnar sé að hvetja banka og verðbréfamiðlara til virkara hlutverks í skuldabréfaviðskiptum þá eru áhrifin mest á þann hluta starfseminnar sem felst í fjármögnun viðskiptavina, einkum vogunarsjóða.
Wenxin Du bendir á að eftir áfallið sem varð þegar Silicon Valley Bank féll árið 2023, að hluta til vegna taps á ríkisskuldabréfum í hækkandi vaxtaumhverfi, sé varfærni í eigin viðskiptum með langtímaskuldabréf rökrétt stefna hjá viðskiptabönkum.
Því sé ólíklegt að slökun á SLR-reglum hvetji þá sérstaklega til að auka skuldabréfaeign sína. Þess í stað muni hún líklega stuðla að enn frekari útvistun áhættu til vogunarsjóða sem stóla á lánalínur bankanna.
Du telur að rýmkun á fjármagnskröfum bankakerfisins, einkum ef hún felur í sér undanþágur fyrir ríkisskuldabréf og tryggð viðskiptalán, geti ómeðvitað grafið undan þeim stöðugleika sem stefnt er að.
Þannig gæti breyting sem ætlað er að styrkja markaðinn og gera hann seigari í áföllum í raun aukið viðkvæmni hans – með því að ýta enn frekar undir skuldsetningu og kerfisleg tengsl.