Vanskil heimila og fyrirtækja hjá viðskiptabönkunum þremur eru nú lægri en fyrir Covid-faraldurinn, samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands. Fjármálaráðuneytið fagnar þróuninni í vanskilum í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Um 0,7% af lánum heimila var í vanskilum í september á þessu árið samanborið við 0,9% um áramót og í september í fyrra. Um 2,4% lána fyrirtækja voru í vanskilum í lok september á þessu ári en hlutfallið var 3,4% um áramót og 4,2% í september í fyrra.
„Síðustu misseri hafa einkennst af mikilli óvissu og sveiflum um allan heim. Það er ekki sjálfsagt að staða heimila og fyrirtækja haldist sterk í gegnum slíka tíma og þess vegna er ánægjulegt að sjá þessa þróun í vanskilum framan af ári. Það er grundvallaratriði í okkar huga að halda áfram að styðja sérstaklega við þá sem mest þurfa, líkt og endurspeglast m.a. í þeim aðgerðum sem kynntar voru í gær til að styðja við kjarasamninga,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Það dró verulega úr atvinnuleysi á síðasta ári og fyrri helmingi þessa árs. Skráð atvinnuleysi hefur verið á bilinu 3,3%-3,5% síðasta hálfa árið.
Fjármálaráðuneytið segir að lítil vanskil og lágt atvinnuleysi endurspeglist í niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofunnar sem kynnt var fyrr á árinu. Heimilin töldu gæði eigin lífskjara í, eða nálægt, sögulegu hámarki í fyrra og hlutfall heimila sem áttu ekki erfitt með að láta enda ná saman hafi aldrei verið hærri, eða 75%.