Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði áfram í júní og hefur ekki verið hærri frá árinu 2007. Hátt gildi hagvísisins gefur til kynna að horfur eru á efnahagsbata fram eftir seinni árshelmingi þrátt fyrir ýmsa óvissuþætti. Leiðandi hagvísirinn nú hækkað samfleytt frá því í september 2020.
Þrír af sex undirliðum hækka frá í maí. Stærsta framlag til hækkunar er vegna fjölgunar ferðamanna, meiri vöruinnflutnings og aukins fiskafla.
Analytica segir þó áhyggjuefni að þrír mikilvægir undirliðir hagvísisins lækka frá fyrri mánuði, þar á meðal væntingavísitala Gallup og debetkortavelta.
„Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar þá er óvissa tengd ferðaþjónustu, stríðinu í Úkraínu og framgangi COVID-19 farsóttarinnar. Framvindan á fjármálamarkaði er einnig meðal óvissuþátta vegna verðbólgu og aðgerða ýmissa seðlabanka í þá veru að minnka peningalega þenslu,“ segir í frétt á vef Analytica.
Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.