HRC Ísland, rekstraraðili Hard Rock á Íslandi, tapaði 93 milljónum króna á síðasta ári og 184 milljónir árið 2020. Félagið hefur ekki enn skilað hagnaði en Hard Rock opnaði aftur á Íslandi í október 2016.
Rekstrartekjur félagsins hækkuðu um þriðjung á milli ára og námu 356 milljónum en tekjurnar voru þó enn um helmingi lægri en árið 2019. Rekstrargjöld hækkuðu lítillega frá fyrra ári og námu 445 milljónum, en þar af voru 132 milljónir í laun og launatengd gjöld. Ársverkum fjölgaði úr 15 í 18.
Eignir HRC Íslands voru bókfærðar á 308 milljónir króna í lok síðasta árs. Eigið fé félagsins var neikvætt um einn milljarð króna. Skuldir námu 1,4 milljörðum en þar af voru 1,2 milljarðar flokkaðar sem skuldir við tengda aðila.
Hard Rock á Íslandi er að mestu í eigu fjárfestisins Högna Péturs Sigurðssonar í gegnum HRC eignarhaldsfélag og félögin Nautica og Zukunft. Hann keypti HRC Ísland af Eyju fjárfestingarfélagi árið 2016.