Héraðsdómur Reykjavíkur komst á föstudaginn að þeirri niðurstöðu að Samskip hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn áfrýjunarnefndar um tiltekin atriði í sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið (SKE) vegna meints samráðs við Samskip á árunum 2008-2013, sem fól í sér 1,5 milljarða sekt á Eimskip og kvaðir á samstarf flutningafélaganna.

Héraðsdómur sneri þar með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 2. desember 2021 um að vísa frá kæru Samskipa. Samskip hafði krafist þess að liður í sátt Eimskips og SKE yrði felldur úr gildi.

„Í dómi héraðsdóms frá því á föstudag var úrskurður áfrýjunarnefndar sem áður segir felldur úr gildi og komist að þeirri niðurstöðu að Samskip eigi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn áfrýjunarnefndar í málinu,“ segir í tilkynningu á vef SKE. Dómur héraðsdóms hefur ekki verið birtur.

„Samkeppniseftirlitið mun nú yfirfara niðurstöðu héraðsdóms og forsendur hans.“

Samkvæmt sáttinni, sem tilkynnt var um í júní 2021, viðurkenndi Eimskipi samskipti og samráð við Samskip á umræddu tímabili og að sú háttsemi hefði falið í sér alvarleg brot gegn samkeppnislögum og EES-samningnum. Eimskip féllst á að greiða 1.500 milljóna króna stjórnvaldssekt.

Samskip kærði ákvörðun SKE mánuði síðar og krafðist þess að málsgrein, sem kveður á um að eigi Eimskip viðskiptalegt samstarf við Samskip þá skuldbindi félagið sig til þess að hætta því, yrði felld úr gildi. Liðurinn felur einnig í sér að Eimskip skuldbindi sig til að eiga ekki í viðskiptum við önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip ættu einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki.

Samskip taldi fyrirmæli sáttarinnar fela í sér ólögmæta takmörkun á samnings- og atvinnufrelsi fyrirtækisins og veikti stöðu þess gagnvart Eimskipi.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði frá kæru Samskipa í desember 2021. Nefndin taldi að Samskip hefðu ekki átt rétt á því að koma að gerð sáttarinnar við Eimskip og gæti fyrirtækið því ekki borið umrætt ákvæði sáttarinnar undir áfrýjunarnefndina. Í þessu sambandi var tekið fram að þætti Samskipa í rannsókninni væri enn ólokið. Taldi áfrýjunarnefnd því óhjákvæmilegt að vísa kæru Samskipa frá nefndinni.