Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í morgun er meiri munur á út­boðs­gengi Ís­lands­banka og markaðs­gengi í yfir­standandi út­boði ríkisins en í því síðasta sem fór fram með til­boðs­fyrir­komu­lagi.

Sé tekið mið af dagslokagengi Íslandsbanka í gær er útboðsgengið um 6,9% lægra en markaðsgengið.

Í síðasta út­boði var um 4,1% af­slátt til fjár­festa en afslátturinn svokallaði fékk mikið umtal í fjölmiðlum.

Hlutfallslega er þó um 70% meiri afslátt að ræða á eignarhlutum ríkisins í núverandi útboði en í útboðinu í mars 2022.

Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðingur og fyrr­verandi efna­hags­ráðgjafi ríkis­stjórnarinnar, reiknast til að takist ríkinu að selja allan 42,5% hlutinn sem er í boði í núverandi út­boði sé af­slátturinn á eignar­hluti ríkisins um þremur milljörðum meiri en í síðasta út­boði.

„Ef ríkinu tekst að selja allan hlut Ís­lands­banka í yfir­standandi út­boði verður „af­slátturinn“ til fjár­festa um 3 milljörðum króna meiri heldur en í út­boðinu al­ræmda í mars 2022,” skrifar Kon­ráð á X.

Meðalgengi bréfa í Íslandsbanka yfir 15 viðskiptadaga er um 112,17 krónur og er því 5% afsláttur 5,61 króna og þannig verður útboðsgengið til.

Dagslokagengi Íslandsbanka var 114,5 krónur í gær og jafngildir það því rúmlega 6,9% afslætti miðað við markaðsgengi.