Ólafur Jóels, þáttarstjórnandi Game Tíví, segist sammála því að margir nýir tölvuleikir séu ekki eins góðir og þeir sem gefnir voru út fyrir nokkrum árum, jafnvel áratugum síðan. Hann telur að bæði grafíkin og upplifunin hafi rýrnað aðeins innan iðnaðarins.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að þróunin eigi sér margar mismunandi hliðar en tölvuleikjaiðnaðurinn hefur glímt við mikla erfiðleika undanfarin ár.
„Það er búið að vera að segja upp endalaust af fólki í iðnaðinum eftir Covid og ástæðan er einfaldlega sú að það er bara heil ákvörðun að fara í það að búa til nýjan leik. Þetta er mikil fjárfesting og sumir leikir fá bara ekki eins góð viðbrögð og framleiðendur vonast eftir.“
Óli bendir á að tölvur í dag séu líka orðnar mun þróaðri og þurfi því að eyða meiri pening í að búa til betri grafík og betri upplifun til að standast nútímakröfur tölvuleikjaspilara. Þá séu framleiðendur einnig í kapphlaupi við tímann og þurfi oft að gefa leiki út ókláraða til að geta líka staðið við loforð til fjárfesta.
„Ég held að í flestum tilfellum séu framleiðendur einfaldlega komnir yfir tímann og það þurfi að henda leiknum út. Auðvitað er alltaf hægt að dunda sér, segjum sem svo að þú sért að skrifa smásögu en vilji bíða og fínpússa en þá getur tekið mörg ár að klára söguna. Það er svipað með tölvuleiki og á einhverjum tímapunkti þá þarf einhver að segja stopp.“
Sem dæmi nefnir Óli tölvuleikina Cyberpunk og No Man‘s Sky en fyrir útgáfu fengu báðir leikir mjög mikla athygli og voru framleiðendur duglegir að byggja upp spennu í viðtölum og á ráðstefnum.
„Þetta var ein háværasta auglýsingaherferð í sögu tölvuleikja en þegar Cyberpunk kom út þá var varan ein sú versta í sögu tölvuleikja líka. Þeir höfðu bara verið með fjárfesta andandi ofan í hálsinn á sér og vildu gefa leikinn út sem fyrst.“
Hann segir þó að framleiðendur þeirra leiks hafi tekið sig til og lagað hann. Framleiðendur No Man‘s Sky gerðu slíkt hið sama og í dag er sá leikur með þeim betri á markaðnum. Afsökunarbeiðni var engu að síður send út og viðskiptavinum boðin endurgreiðsla.
„Við erum alltaf að sjá fleiri og fleiri afsökunarbeiðnir frá framleiðendum eftir útgáfu leikja og maður spyr sig hvaðan sú aukning komi. Ég hugsa líka að þessi afsökunarbréf séu örugglega skrifuð áður en leikurinn kemur út. Þetta eru náttúrulega engir vitleysingar og þeir hafa eflaust sjálfir prufað leikinn og vita þá kannski við hverju þeir eiga að búast.“
Nýsköpun er ekki ókeypis
Óli telur einnig að það sé einfaldlega erfiðara að búa til nýja tölvuleiki í dag. Fyrirtæki þurfa hátt í hundruð, ef ekki þúsund manns, til að framleiða leikinn og getur það tekið mörg ár að klára hann. Þá þarf að búa til tónlistina, leikarana og heiminn sem leikurinn gerist í.
„Leikurinn þarf þó að vera í það minnsta peninganna virði og er gott dæmi um þá þróun Battlefield-skotleikjanna. Í gamla daga voru leikir eins og Battlefield Bad Company og Battlefield 3 æðislegir. Það sem þeir höfðu líka fram yfir Call of Duty var að það var hægt að eyðileggja heilar byggingar í leiknum og jafna þær við jörðu.“

Hann segir hins vegar að nýjasti leikurinn, Battlefield 2042, bjóði ekki upp á þessa möguleika og eru vopnin mun færri. Viðskiptavinir voru engu að síður krafðir um fullt verð og varð það til þess að margir spilarar sneru gegn framleiðanda leiksins, Electronic Arts.
Óli segir að gervigreindin gæti aftur á móti komið til móts við mikið af þeim vandamálum innan tölvuleikjaiðnaðarins en býst þó ekki við að sjá fleiri stærri frumlegri leiki á næstunni. Megináhersla framleiðenda sé þá að mæta kröfum spilara um leikina sem þeir eru vanir að spila.
Sem dæmi má nefna Football Manager en það er leikur sem er alltaf gefinn út í nóvember. Leikurinn kom hins vegar ekki út í nóvember á síðasta ári og var útgáfu leiksins frestað til mars. Í lokin var síðan ákveðið að gefa ekki leikinn út á þessu ári og bíða frekar til næsta nóvember.
„Þeir hættu við útgáfuna en voru þó allavega heiðarlegir. Þeir hefðu getað gefið út leik sem var ókláraður en tóku þessa ákvörðun og fengu því stuðning frá fyrirtækinu og fjárfestum. Þeir sýndu aðdáendum sínum þá virðingu og viðbrögðin voru mjög jákvæð. Margir sögðu að þó svo að þeir fengju ekki Football Manager-skammtinn sinn í ár þá hlyti næsti leikurinn bara að vera enn betri.“