Lífeyrissjóðir landsins eiga ríflega 16% hlut í 500 stærstu fyrirtækjum landsins, minna en hið opinbera og erlendir aðilar, samkvæmt greiningu Viðskiptablaðsins. Fjallað er ítarlega um málið í Viðskiptablaði vikunnar.
Ólafur Sigurðsson telur samantektina gefa góða mynd af eignarhaldi viðskiptahagkerfisins og bætir við að upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækja eru aðgengilegri hér á landi en í mörgum samanburðarlöndum.
„Mér finnst umtal um eignarhald lífeyrissjóða á skráðum fyrirtækjum afvegaleiða umræðuna um eignarhald í viðskiptalífinu almennt. Það eru margir mjög uppteknir af því að lífeyrissjóðir eigi orðið of mikið af atvinnulífinu án þess að færa fyrir því sérstök rök,“ segir Ólafur.
Lífeyrissjóðir áttu um 35% hlut beint og óbeint í skráðum fyrirtækjum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í árslok 2023, samkvæmt nýlegri umræðuskýrslu Seðlabankans um lífeyrissjóði. Í skýrslunni er tilgreint að dæmi séu um að þeir eigi jafnvel um 80% í einstaka fyrirtækjum. Lífeyrissjóðir eiga hins vegar samanlagt um 16% hlut í 500 stærstu fyrirtækjum landsins, minna en hið opinbera og erlendir aðilar.
„Það sem einkennir eignarhald lífeyrissjóða umfram aðra fjárfesta er að lífeyrissjóðum er óheimilt að eiga meira en 20% í hverju fyrirtæki og af þeim sökum deila þeir eignarhaldi í mun meira mæli en aðrir eigendur.
Lífeyrissjóðir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og geta að takmörkuðu leyti sammælst um eigendasjónarmið enda teldust þeir þá sameiginlegur eigandi og væru yfirtökuskyldir sem þeim er beinlínis óheimilt.“
Ekki séríslensk þróun
Ólafur segir það ekki séríslenska þróun að stofnanafjármagn hafi vaxið inn í eignarhald skráðra fyrirtækja. Að hans mati er það ekki sérstakt vandamál á meðan lífeyrissjóðir eins og aðrir eigendur virði þær leikreglur sem gilda um rekstur fyrirtækja.
Hann bendir sem dæmi á að framtaksfjárfestingar (e. private equity) hafi farið vaxandi víða um heim, einkum í Bandaríkjunum. Þar eru oft ráðandi sérhæfðir sjóðir sem fjármagnaðir eru að mestu leyti af lífeyrissjóðum, háskólasjóðum og tryggingarfélögum.
„Það er hvergi í heiminum eins mikið viðskiptalíf og í Bandaríkjunum og ekki síst í óskráða menginu. Eignarhaldið er í armslengd frá raunverulegum eigendum og þegar samstarfið er gott virkar þetta fjármagn sem vítamínsprauta inn í atvinnulífið, nýtt til nýsköpunar, hagræðingar og vaxtar.“
Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um málið í Viðskiptablaði vikunnar.