Miklar breytingar hafa orðið á stjórn Íslandsbanka undanfarið ár og ljóst er að a.m.k. tveir nýir einstaklingar taka sæti í stjórninni að loknum aðalfundi bankans þann 21. mars næstkomandi. Enginn af þeim sjö einstaklingum sem tilnefndir eru í stjórn Íslandsbanka hafa setið lengur en eitt ár í stjórn bankans.

Tilkynnt var í morgun að Anna Þórðardóttir, langsetnasti stjórnarmaður Íslandsbanka, hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Anna, sem er fyrrum endurskoðandi og meðeigandi hjá KPMG, tók sæti í stjórn Íslandsbanka árið 2016.

Frosti Ólafsson, sem hafði setið næst lengst í stjórninni eða frá árinu 2020, sagði sig úr stjórninni í byrjun árs þar sem hann var að taka við stöðu hjá McKinsey & Company.

Allt stefnir því í að Agnar Tómas Möller, fyrrum sjóðsstjóri hjá Kviku eignastýringu, verði langsetnasti stjórnarmaður Íslandsbanka að loknum aðalfundinum. Hann tók sæti í stjórn Íslandsbanka á aðalfundi í mars 2023.

Agnar er tilnefndur í stjórn bankans af valnefnd Bankasýslu ríkisins, líkt og á síðast ári. Bankasýslan heldur utan um 42,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Fjórir nýir komu eftir sögulega sekt FME

Mikla endurnýjun í stjórn bankans má ekki síst rekja til mikillar gagnrýni á störf stjórnar og stjórnenda bankans vegna 1,2 milljarða króna sektar sem Fjármálaeftirlitið lagði á bankann vegna framkvæmdar sölu á 22,5% eignarhlut í bankanum í mars 2022‏. Íslandsbanka var umsjónaraðili útboðsins.

Nokkrum dögum eftir að sátt bankans við FME boðaði stjórn Íslandsbanka til hluthafafundar þar sem stjórnarkjör var á dagskrá. Þrír stjórnarmenn, þau Finnur Árnason, Guðrún Þorgeirsdóttir og Ari Daníelsson, sóttust ekki eftir endurkjöri. Finnur var þá stjórnarformaður og Guðrún varaformaður stjórnar bankans.

Auk þeirra létu Birna Einarsdóttir, bankastjóri, Ásmundur Tryggvason, þáverandi framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta, og Atli Rafn Björnsson, yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar, öll af störfum.

Af sjö manna stjórn bankans komu fjórir einstaklingar nýir inn í stjórnina á hluthafafundinum sem fór fram í lok júlí 2023. Auk Lindu Jónsdóttur, Hauks Arnar Birgissonar og Stefáns Péturssonar sem tilnefnd voru af tilnefningarnefnd bankans og valnefnd Bankasýslunnar, þá náði Helga Hlín Hákonardóttir, meðeigandi og ráðgjafi hjá Strategíu, kjöri.

Valgerður H. Skúladóttir, stofnandi Sensa, náði ekki kjöri þrátt fyrir að hafa tekið sæti í stjórn bankans í kjölfar aðalfundar einungis nokkrum mánuðum áður.

Í morgun var tilkynnt um að valnefnd Bankasýslunnar hefði tilnefnt Valgerði aftur í stjórn Íslandsbanka fyrir stjórnarkjör á aðalfundi bankans þann 21. mars næstkomandi.

Þá lagði tilnefningarnefnd bankans til að Stefán Sigurðsson verði kjörinn í stjórn Íslandsbanka. Stefán er fyrrum forstjóri Sýnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri eignastýringar Íslandsbanka.

Bankasýslan tilnefnir eftirtalda einstaklinga:

  • Agnar Tómas Möller, stjórnarmaður - tók sæti í stjórn í mars 2023
  • Haukur Örn Birgisson, stjórnarmaður - tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Valgerður Hrund Skúladóttir, tilnefnd í stjórn

Tilnefningarnefnd bankans leggur til að auk þeirra sem Bankasýslan tilnefndi verði eftirtalin kjörin í stjórn bankans:

  • Linda Jónsdóttir, stjórnarformaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Helga Hlín Hákonardóttir, stjórnarmaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Stefán Pétursson, stjórnarmaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Stefán Sigurðsson, tilnefndur í stjórn