Ítalska milljarðamæringafjölskyldan Agnelli hefur aukið hlut sinn í Royal Philips NV til að styrkja stöðu sína enn frekar sem stærsti hluthafi lækningatækjaframleiðandans. Eignasafn fjölskyldunnar er umfangsmikið en þar má m.a. finna 65% hlut í ítalska knattspyrnufélaginu Juventus og 14% hlutur í bílasamsteypunni Stellantis.

Exor NV, fjárfestingarfélag fjölskyldunnar, hækkaði hlut sinn í Philips í 18,7%, úr 17,5% í júní. Virði hlutabréfanna nemur um 4,25 milljörðum evra.

Undir forystu forstjórans John Elkann hefur Exor leitast við að auka fjárfestingu sína í heilbrigðis- og tækniiðnaðinum. Félagið keypti 15% hlut í Philips árið 2023 og hefur þrisvar sinnum tilkynnt um aukningu á eignarhlut sínum síðan í ágúst sama ár.

Í síðasta mánuði seldi Agnelli-fjölskyldan þriggja milljarða evra hlut í lúxusbílaframleiðandanum Ferrari. Fjölskyldan sagði að ágóðinn yrði notaður til að fjármagna „stórfelld ný kaup“ og til að hefja endurkaupaáætlun hlutabréfa upp á einn milljarð evra.

Philips hefur unnið að því að endurbyggja traust fjárfesta eftir að hafa gert upp kröfur í Bandaríkjunum tengdar gölluðum svefnöndunarbúnaði, sem leiddu til þess hlutabréfaverð félagsins tók dýfu. Lækningatækjafyrirtækið samdi um lægri bætur en reiknað hafði verið með vegna þessara krafna á síðasta ári.