Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er bjartsýnn á efnahagshorfur hérlendis samkvæmt árlegri skýrslu sjóðsins sem birtist í gær.
Að mati AGS hefur Ísland náð aðdáunarverðum bata eftir áföll á síðustu árum en aðhaldsstefna í peningamálum og ríkisfjármálum hefur hægt á vexti sem hefur byrjað að hægja á verðbólgu.
Hagvöxtur á Íslandi var 4,1% í fyrra en verður um 1,2% í ár að mati AGS. Hagvöxtur mun taka aftur við sér á næsta ári og vera um 2,4%.
Verðbólgan mun hjaðna niður í 5,1 í árslok og verða um 2,5% á fyrri helmingi ársins 2026. Sjóðurinn telur því að Ísland muni ná mjúkri lendingu í baráttunni sinni við verðbólguna.
Að mati AGS eru íslenskir bankar vel fjármagnaðir, arðbærir og greiðslufærir. Vinnumarkaðurinn er enn sterkur og hægst hefur á launahækkunum.
Sjóðurinn segir að nýgerðir kjarasamningar hérlendis hafi verið skref í rétta átt en þeir stuðli að minni verðbólgu og styrki samkeppnisstöðu Íslands við útlönd.
Áhættuþættir að mati sjóðsins eru ófyrirséð aukning ríkisútgjalda í tengslum við komandi þingskosningar. Minni eftirspurn eftir íslenskum útflutningsvörum eða mikil verðlækkun á áli gæti einnig haft neikvæð áhrif á þjóðarbúið.
Á hinn bóginn gæti aukin eftirspurn eftir íslenskum lyfjum og líftækni og öðrum vörum úr hugvitsgeiranum haft verulega jákvæð áhrif á þjóðarbúið.