Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við því að ef til stórfellds viðskiptastríðs á heimsvísu kæmi myndi samdráttur innan efnahagskerfisins á heimsvísu samsvara samanlagðri stærð franska og þýska hagkerfisins.

Viðvörunin frá AGS kemur samhliða hugsanlegu endurkjöri Donalds Trumps sem segist vilja taka upp alhliða 20% toll á allar innfluttar vörur til Bandaríkjanna. ESB er nú þegar að undirbúa hefndaraðgerðir ef til þess kæmi.

Í síðustu viku sagði Trump að tollur væri fallegasta orðið í orðabókinni og eru alþjóðlegir markaðir og fjármálaráðherrar nú farnir að íhuga þann möguleika að hann myndi láta verða af því sem hann segir.

Gita Gopinath, aðstoðarframkvæmdastjóri AGS, segir að sjóðurinn geti enn ekki metið hugsanlegar viðskiptaáætlanir Trumps en telur að slíkar gjaldskrár gætu endað með tapi sem nemur 7% af vergri landsframleiðslu heimsins.

„Þetta eru mjög háar tölur. Í grundvallaratriðum samsvarar 7% hagkerfum Frakklands og Þýskalands og væri það mjög stór samdráttur,“ segir Gopinath og bætir við að tollar upp á fleiri hundruð milljarða dala myndu skapa ólíkan heim en þann sem við höfum búið í undanfarna tvo áratugi.