Í loka­yfir­lýsingu Alþjóða­gjald­eyris­sjóðsins (AGS) eftir ár­lega út­tekt hans á stöðu og horfum í ís­lensku efna­hags­lífi segir að Ís­land hafi náð tölu­verðum árangri við að draga úr ójafn­vægi sem skapaðist í kjölfar heims­far­aldursins. Hins vegar beri stjórn­völd nú ábyrgð á því að tryggja að yfir­lýst stefnu­mið í ríkis­fjár­málum, húsnæðis­málum og fram­leiðni­aukningu verði að veru­leika.

Ís­lensk stjórn­völd standa frammi fyrir áfram­haldandi verðbólguþrýstingi og viðvarandi veik­leikum í fram­leiðni.

Þetta kemur fram í loka­yfir­lýsingu Alþjóða­gjald­eyris­sjóðsins (AGS) eftir tveggja vikna samráð sendi­nefndar sjóðsins við stjórn­völd og aðra hagaðila. Þar er kveðið á um að Ís­landi hafi tekist vel að snúa við miklu ójafn­vægi eftir heims­far­aldur en einnig að krefjandi verk­efni bíði, ekki síst hjá stjórn­völdum.

„Hag­vöxtur dróst saman í 0,5 pró­sent árið 2024 (úr 5,6% árið 2023), aðal­lega vegna sértækra þátta (m.a. fisk­veiði­afli undir væntingum og tak­markanir á orku­fram­boði) sem drógu úr út­flutningi, og lítils vaxtar einka­neyslu. Búist er við að hag­vöxtur aukist í 1,8% á árinu 2025 og 2,4% árið 2026 og verði studdur af vexti út­flutnings, hækkun raun­tekna og áfram­haldandi slökun á peninga­legu aðhaldi,” segir í skýrslu AGS.

AGS bendir á að hjöðnun verðbólgu á Ís­landi gangi hægar en búist var við og muni ekki ná mark­miði Seðla­bankans (2,5%) fyrr en undir lok árs 2026.

Þrátt fyrir hraðan sam­drátt í hag­vexti á síðasta ári sem nam einungis 0,5% halda háar kjara­samnings­bundnar launa­hækkanir og verðbólgu­væntingar áfram að viðhalda verðbólguþrýstingi.

Í þessu sam­hengi hvetur sjóðurinn Seðla­bankann til að sýna aðgæslu við væntan­legar vaxtalækkanir. Fækkun stýri­vaxta­skrefa um allt að 2,5 pró­sentu­stig sé mögu­leg yfir komandi fjórðunga, en ein­göngu ef verðbólgu­horfur batna raun­veru­lega.

Ríkis­fjár­mál: Metnaðar­full áform, en svigrúm lítið

AGS fagnar nýrri fjár­málaáætlun til 2028 og telur að hún sýni raun­veru­legan metnað stjórn­valda til að snúa við halla­rekstri. Stefnt er að því að halli hins opin­bera verði 1,3% af lands­fram­leiðslu 2025 og að af­gangur náist innan fimm ára.

Samt sem áður bendir sjóðurinn á að svigrúmið til viðsnúnings sé þröngt og mikilvægt sé að forðast frekari út­gjalda­aukningu, nema skýr og varan­leg fjár­mögnun liggi fyrir. Það á sér­stak­lega við í ljósi þess að opin­ber skuldaþróun á Ís­landi hefur verið hraðari en á hinum Norður­löndunum frá heims­far­aldri.

Ís­land má ekki sofna á verðinum

Sér­stök áhersla er lögð á veikan fram­leiðni­vöxt og skort á dýna­mískri at­vinnu­upp­byggingu. AGS bendir á að fram­leiðni hafi dregist saman miðað við þróun fyrir fjár­mála­kreppu og að hlut­fall ört vaxandi fyrir­tækja á Ís­landi sé undir meðaltali Evrópu.

Sjóðurinn styður áherslur stjórn­valda á nýsköpun og menntun en hvetur jafn­framt til: Ein­földunar viður­kenningar á er­lendum starfs­réttindum, mark­vissari hvata til aukinnar þátt­töku í háskólanámi og aukins að­gengis að frum­fjár­magni fyrir sprota­fyrir­tæki

Þá sé Ís­land í sér­stak­lega sterkri stöðu til að nýta tækifæri sem felast í gervi­greind og stafrænum lausnum, vegna tækni­lega þróaðs sam­félags og vel menntaðs mann­auðs.

Húsnæðis­markaður undir þrýstingi

AGS telur að húsnæðis­markaðurinn kunni að verða viðkvæmur gagn­vart snörpum verðlækkunum, sér­stak­lega sam­hliða viðvarandi háum vöxtum og minnkandi kaup­mætti. Þrátt fyrir að fjár­mála­kerfið standi traustum fótum, með háu eigin­fjár­hlut­falli og lágum van­skilum, þurfi að gæta varúðar.

Styður sjóðurinn þau skref sem þegar hafa verið tekin, svo sem: Hertar reglur um skammtíma­leigu, skatt­lagningu auðs óvirkra lóða­eig­enda og aukinn sveigjan­leika í húsnæðis­stuðningi

Sér­stak­lega er þó hvatt til að hlut­fall verð­tryggðra fast­eigna­lána verði lækkað mark­visst, þar sem slík lán auka hættuna á sjálf­virkum verðbólguáhrifum.

„Áform stjórn­valda um að stuðla að óverð­tryggðum húsnæðislánum og hækka skatta á leigu­tekjur af mörgum fjár­festinga­eignum eru fagnaðar­efni.“

Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn hvetur einnig stjórn­völd til að standa við þau lof­orð, með festu, aðhaldi og um­bótum ef tryggja eigi stöðugan vöxt, lægri verðbólgu og endur­nýjað traust til hag­stjórnar.