Í lokayfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) eftir árlega úttekt hans á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi segir að Ísland hafi náð töluverðum árangri við að draga úr ójafnvægi sem skapaðist í kjölfar heimsfaraldursins. Hins vegar beri stjórnvöld nú ábyrgð á því að tryggja að yfirlýst stefnumið í ríkisfjármálum, húsnæðismálum og framleiðniaukningu verði að veruleika.
Íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir áframhaldandi verðbólguþrýstingi og viðvarandi veikleikum í framleiðni.
Þetta kemur fram í lokayfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) eftir tveggja vikna samráð sendinefndar sjóðsins við stjórnvöld og aðra hagaðila. Þar er kveðið á um að Íslandi hafi tekist vel að snúa við miklu ójafnvægi eftir heimsfaraldur en einnig að krefjandi verkefni bíði, ekki síst hjá stjórnvöldum.
„Hagvöxtur dróst saman í 0,5 prósent árið 2024 (úr 5,6% árið 2023), aðallega vegna sértækra þátta (m.a. fiskveiðiafli undir væntingum og takmarkanir á orkuframboði) sem drógu úr útflutningi, og lítils vaxtar einkaneyslu. Búist er við að hagvöxtur aukist í 1,8% á árinu 2025 og 2,4% árið 2026 og verði studdur af vexti útflutnings, hækkun rauntekna og áframhaldandi slökun á peningalegu aðhaldi,” segir í skýrslu AGS.
AGS bendir á að hjöðnun verðbólgu á Íslandi gangi hægar en búist var við og muni ekki ná markmiði Seðlabankans (2,5%) fyrr en undir lok árs 2026.
Þrátt fyrir hraðan samdrátt í hagvexti á síðasta ári sem nam einungis 0,5% halda háar kjarasamningsbundnar launahækkanir og verðbólguvæntingar áfram að viðhalda verðbólguþrýstingi.
Í þessu samhengi hvetur sjóðurinn Seðlabankann til að sýna aðgæslu við væntanlegar vaxtalækkanir. Fækkun stýrivaxtaskrefa um allt að 2,5 prósentustig sé möguleg yfir komandi fjórðunga, en eingöngu ef verðbólguhorfur batna raunverulega.
Ríkisfjármál: Metnaðarfull áform, en svigrúm lítið
AGS fagnar nýrri fjármálaáætlun til 2028 og telur að hún sýni raunverulegan metnað stjórnvalda til að snúa við hallarekstri. Stefnt er að því að halli hins opinbera verði 1,3% af landsframleiðslu 2025 og að afgangur náist innan fimm ára.
Samt sem áður bendir sjóðurinn á að svigrúmið til viðsnúnings sé þröngt og mikilvægt sé að forðast frekari útgjaldaaukningu, nema skýr og varanleg fjármögnun liggi fyrir. Það á sérstaklega við í ljósi þess að opinber skuldaþróun á Íslandi hefur verið hraðari en á hinum Norðurlöndunum frá heimsfaraldri.
Ísland má ekki sofna á verðinum
Sérstök áhersla er lögð á veikan framleiðnivöxt og skort á dýnamískri atvinnuuppbyggingu. AGS bendir á að framleiðni hafi dregist saman miðað við þróun fyrir fjármálakreppu og að hlutfall ört vaxandi fyrirtækja á Íslandi sé undir meðaltali Evrópu.
Sjóðurinn styður áherslur stjórnvalda á nýsköpun og menntun en hvetur jafnframt til: Einföldunar viðurkenningar á erlendum starfsréttindum, markvissari hvata til aukinnar þátttöku í háskólanámi og aukins aðgengis að frumfjármagni fyrir sprotafyrirtæki
Þá sé Ísland í sérstaklega sterkri stöðu til að nýta tækifæri sem felast í gervigreind og stafrænum lausnum, vegna tæknilega þróaðs samfélags og vel menntaðs mannauðs.
Húsnæðismarkaður undir þrýstingi
AGS telur að húsnæðismarkaðurinn kunni að verða viðkvæmur gagnvart snörpum verðlækkunum, sérstaklega samhliða viðvarandi háum vöxtum og minnkandi kaupmætti. Þrátt fyrir að fjármálakerfið standi traustum fótum, með háu eiginfjárhlutfalli og lágum vanskilum, þurfi að gæta varúðar.
Styður sjóðurinn þau skref sem þegar hafa verið tekin, svo sem: Hertar reglur um skammtímaleigu, skattlagningu auðs óvirkra lóðaeigenda og aukinn sveigjanleika í húsnæðisstuðningi
Sérstaklega er þó hvatt til að hlutfall verðtryggðra fasteignalána verði lækkað markvisst, þar sem slík lán auka hættuna á sjálfvirkum verðbólguáhrifum.
„Áform stjórnvalda um að stuðla að óverðtryggðum húsnæðislánum og hækka skatta á leigutekjur af mörgum fjárfestingaeignum eru fagnaðarefni.“
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur einnig stjórnvöld til að standa við þau loforð, með festu, aðhaldi og umbótum ef tryggja eigi stöðugan vöxt, lægri verðbólgu og endurnýjað traust til hagstjórnar.