Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn (AGS) varar við aukinni hættu á efna­hags­sam­drætti í Bandaríkjunum og lækkar jafn­framt hag­vaxtar­spár fyrir öll helstu hag­kerfi heims. Ástæðan er til­komin af vaxandi við­skipta­stríði, sér­stak­lega eftir nýjar tolla­að­gerðir Donalds Trump.

Í nýrri alþjóð­legri hag­spá (World Economic Out­look) spáir sjóðurinn því að vöxtur verði hægari í Bandaríkjunum, Kína, Ind­landi, Þýska­landi, Bret­landi og fleiri stórum ríkjum en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Sam­hliða þessu lýsir sjóðurinn yfir áhyggjum af því að við­skipta­stefna helstu ríkja, einkum auknir tollar og óvissa í sam­skiptum Bandaríkjanna og Kína, hafi þegar tekið að draga úr alþjóð­legri fjár­festingu og vexti.

Líkurnar á sam­drætti í Bandaríkjunum aukast

Pi­er­re-Oli­vier Gourinchas, aðal­hag­fræðingur AGS, segir að líkurnar á efna­hags­sam­drætti í Bandaríkjunum á þessu ári hafi aukist úr 25% í 40% frá síðustu spá.

Pi­er­re-Oli­vier Gourinchas, aðal­hag­fræðingur AGS.
Pi­er­re-Oli­vier Gourinchas, aðal­hag­fræðingur AGS.

Hann segir þó að grunn­hug­mynd spárinnar sé sú að bæði bandarískt og alþjóð­legt hag­kerfi nái að forðast kreppu, þar sem árið 2025 hafi hafist með traustum vexti.

„Helsta ógnin fram undan er að við­skipta­deilur gætu aukist enn frekar,“ sagði Gourinchas. „Við verðum einnig að horfast í augu við þá hættu að fjár­mála­skil­yrði herðist veru­lega, sem myndi draga úr láns­fé og eftir­spurn.“

Tollar hækka verðlag og auka óvissu

AGS spáir því að verðbólga í Bandaríkjunum verði um 3% á þessu ári, sem er einni pró­sentu hærra en áður var gert ráð fyrir.

Tollar og við­skipta­hindranir hafa áhrif á fram­boðskeðjur og auka kostnað við inn­fluttar vörur, sem bitnar beint á neyt­endum.

Þrátt fyrir þrýsting frá Trump um tafar­lausar vaxtalækkanir full­yrðir Gourinchas að Seðla­banki Bandaríkjanna (Federal Reserve) hafi gert rétt í því að halda vöxtum óbreyttum, á meðan hann metur áhrif tollanna á hag­kerfið. „Að bíða og vega og meta er mjög skyn­sam­legt,“ segir hann og ítrekar mikilvægi sjálf­stæðs seðla­banka við stýringu verðbólgu.

Hægari vöxtur á heims­vísu

Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn hefur lækkað spá sína um vöxt í heims­bú­skapnum úr 3,3% í 2,8% á árinu 2025, og gerir ráð fyrir 3% vexti árið 2026.

Þetta er veru­leg slökun á vexti frá fyrri árum, og sjóðurinn segir tolla­stefnuna vera megin­orsök.

Bandaríkjunum er enn spáð hraðastum vexti meðal G7-ríkja, en spá sjóðsins hefur verið lækkuð úr 2,7% í 1,8% árið 2025 og 1,7% árið 2026.

Þýska­landi er nú spáð engum vexti á þessu ári og aðeins 0,9% vexti árið 2026. Bret­land fær 1,1% vöxt í ár og 1,4% á næsta ári. Í Kína er búist við 4% vexti árin 2025 og 2026, saman­borið við 5% árið 2024.

90 daga frestur Trumps breytir litlu í stóra sam­henginu

Spáin nær aðeins til tolla­að­gerða sem til­kynntar voru frá 1. febrúar til 4. apríl, áður en Trump veitti tíma­bundinn 90 daga frest á flestum hinna svo­nefndu gagn­kvæmu tolla.

Sam­kvæmt AGS mun þessi frestur ekki breyta efni spárinnar nema hann leiði til róttækrar breytingar á við­skipta­stefnu.

„Áhrifin af þegar samþykktum tollum eru orðin viðvarandi,“ segir í spánni. „Jafn­vel þótt frekari tollar verði slegnir á frest hefur þegar orðið nægi­legt tjón til að slá á vöxt, dregið úr sam­keppni og nýsköpun, og aukið til­hneigingu til rentusóknar.“

Framtíðin í höndum stjórn­mála­manna

Sjóðurinn bendir þó á að hægt sé að snúa þróuninni við ef ríki grípa til að­gerða. „Vöxtur gæti tekið við sér fljótt ef ríki slaka á núverandi við­skipta­tak­mörkunum og gera nýja fríverslunar­samninga,“ segir í lok skýrslunnar.