Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, sátu fyrir svörum á opnum fundi Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis síðastliðinn þriðjudagsmorgun þar sem skýrsla fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands fyrir árið 2021 var til umræðu.

Ekki var að sjá að Ásgeir né Gunnar hefðu miklar áhyggjur af ástandinu á fasteignamarkaði, en fasteignaverð hefur hækkað um tugi prósenta undanfarin ár og nemur raunvirðisaukning í íbúðalánasafni viðskiptabankanna 40% á síðustu tveimur árum. Ásgeir sagði ljóst að hlutfall óverðtryggðra lána með breytilega vexti hefði aukist umtalsvert, en einnig hlutfall fyrstu kaupenda.

Vísað var til þeirra áhyggna sem Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur lýsti í viðtali í Áramótablaði Viðskiptablaðsins undir lok síðasta árs. Hún taldi áhyggjuefni að fjöldi lána hefði komist í gegnum greiðslumat á óeðlilega lágum vöxtum sem ljóst var að yrðu ekki til staðar í langtímajafnvægi. Nefndi hún einnig að fólk teldi verðlag á Íslandi, og þar með talið vexti, vera stöðugra en hægt væri að búast við í litlu opnu hagkerfi. Með hækkandi vöxtum væri ljóst að einstaklingar og fjölskyldur gætu lent í vandræðum með afborganir og lán, sem kunni að vera sérstakt áhyggjuefni í ljósi þess fjölda fyrstu kaupenda sem komið hefði inn á markaðinn.

Ásgeir sagðist líta svo á að þeir sem komið hafi inn á fasteignamarkaðinn undanfarin tvö ár séu í sterkri stöðu og hafi komið inn á markaðinn þegar fasteignaverð hafi verið mun lægra og vextir lágir sem hafi tryggt þeim hagstæð lán. „Hafi einhverjir tekjulágir komið inn þar, þá segi ég bara gott fyrir þá, þeir eru búnir að koma vel út úr þessu. Þetta hefur að mörgu leyti heppnast mjög vel og þetta fólk hefur verið að byggja upp eignastöðu sem bæði hefur komið fram í hækkun fasteignaverðs og neikvæðum raunvöxtum," sagði Ásgeir. Hann sagðist hafa viljað sjá nýtt fasteignalánakerfi þróast þannig að hægt væri að festa vexti til lengri tíma, en til að svo mætti verða þyrfti fjármögnun frá lífeyrissjóðunum. Virtist hann því að einhverju leyti taka undir áhyggjur Sigríðar af því að breytilegir vextir gætu orðið að vandamáli í hækkandi vaxtaumhverfi.

Bankarnir hafi svigrúm

Gunnar tók í svipaðan streng og sagði fyrirliggjandi gögn ekki gefa tilefni til þess að hafa áhyggjur af þeim sem keypt hafa fasteignir. Eignamyndun hefði átt sér stað og bankarnir hefðu svigrúm til að koma til móts við fólk í vanda.„Það er allt annað fyrir banka, bæði út af eiginfjárkröfum og viðskiptalegum sjónarmiðum, að semja við heimili sem lendir í því að tekjur lækki, atvinnumissir verði eða einhver atburður á sér stað þannig að fólk getur ekki lengur greitt af húsnæðislánum, þegar veðsetningarhlutfallið er 70% eða 65%, heldur en þegar það er 100% eða hærra, líkt og í aðdraganda fjármálakrísunnar 2008," sagði Gunnar.

Hann bætti því við að nýlegar fréttir af 1,1% kaupmáttaraukningu þýddu að heimilin hefðu borð fyrir báru til að mæta vaxtahækkunum. „Ef ekkert annað breytist og vextir hækka, þá munu vanskil aukast. Hins vegar eru það margir aðrir þættir sem breytast og eru launin þar mikilvægust," sagði Gunnar.

Hann sagði það vera áhyggjuefni að húsnæðismarkaðurinn væri kominn um 10% fram úr leitni, en að miklar launahækkanir síðustu tveggja ára væru hluti af skýringunni.„Það er gömul saga og ný að fasteignaverð er fall af launum og þegar launin hækka þá þrýstist það út í fasteignaverðið. Sé horft yfir sama tímabil þá eru heimilin alla jafna tilbúin að eyða 20-25% af laununum sínum í húsnæði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .