Markaðurinn fyrir hávaxtaskuldabréf í Bandaríkjunum hefur nánast stöðvast eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti umfangsmiklar tollaaðgerðir fyrr í þessum mánuði.
Óvissan sem gripið hefur markaðinn í kjölfarið hefur leitt til algerrar biðstöðu í skuldabréfaútgáfu fyrirtækja með lágt lánshæfi og skert áhættuþol fjárfesta gagnvart áhættusamri fjármögnun.
Frá 2. apríl hefur ekkert nýtt skuldabréf verið gefið út á bandaríska hávaxtamarkaðnum, sem metinn er á 1.400 milljarða dala, samkvæmt Financial Times.
Þetta kemur sérstaklega illa við fjárfestingafélög sem styðjast við þennan markað til að fjármagna yfirtökur og hefur einnig dregið verulega úr getu banka til að ráðast í fjármögnun samruna með skammtímalánum í þeirri von að hægt verði að selja skuldirnar áfram á skuldabréfamarkaði.
„Það er allt í biðstöðu,“ segir Bob Kricheff, yfirmaður fjölþættra skuldafjárfestinga hjá Shenkman Capital Management. „Enginn reynir að verðsetja útgáfur í þessu umhverfi.“
Yfirtökusamningar í bið
Þessi þróun hefur haft bein áhrif á fjölda samninga sem nú hafa verið settir á ís, þar á meðal yfirtöku fjárfestingafélagsins HIG á Converge Technology Systems og kaup ABC Technologies, í eigu Apollo, á TI Fluid Systems.
Bankar á borð við JPMorgan, Citigroup og Morgan Stanley hafa þurft að draga til baka boð um fjármögnun eða endurskrifa lánaskilmála með hærri vöxtum til að verja sig gegn hugsanlegum útlánatöpum.
Fjárfestar hafa í auknum mæli flúið áhættusamar fjárfestingar, og útstreymi úr hávaxtaskuldabréfasjóðum náði hámarki í vikunni eftir tollatilkynningu Trumps.
Samkvæmt ICE BofA-skuldabréfavísitölunni hækkaði álag (e. credit spread) á hávaxtabréf í 4,61 prósentustig, hæsta gildi í nærri tvö ár, áður en það lækkaði lítillega eftir að forsetinn tilkynnti um 90 daga frest á afnámi tollanna.
Bankar sitja uppi með skuldbindingar
Bankar sem hafa veitt skammtímalán með væntingum um að þau verði fjármögnuð til lengri tíma með skuldabréfaútgáfu, sitja nú uppi með skuldbindingar sem ekki er auðvelt að losa sig við.
Jeff Kivitz, fjárfestingastjóri hjá Canyon Partners, segir að „fyrri skuldbindingar kunni að festast á efnahagsreikningum bankanna“ og að þeir séu „síður tilbúnir að gefa út nýjar fjármögnunarviljayfirlýsingar við þessar markaðsaðstæður.“
Í sama streng hefur Goldman Sachs hækkað spár sínar um greiðslufall hjá lághæfisskuldurum. Gert er ráð fyrir að vanskil á hávaxtaskuldabréfum og skuldsettum yfirtökulánum verði 5% og 8% á þessu ári, samanborið við fyrri spár upp á 3% og 3,5%.
Einkalánasjóðir taka við
Í tilfelli Patient Square Capital, sem hyggst yfirtaka fyrirtækið Patterson Companies, hafa hefðbundnir skuldabréfafjárfestar ekki sýnt áhuga.
Citigroup hefur því þurft að leita til einkalánasjóða (e. private credit funds) til að tryggja fjármögnun – sem þýðir almennt hærri vexti og lakari kjör fyrir skuldara.
Samtals hefur útgáfa hávaxtaskuldabréfa og lánasamninga í apríl numið einungis 13 milljörðum dala, sem er vel undir meðaltali síðustu fjögurra ára (52,5 milljarðar dala), samkvæmt gögnum LSEG.
Endurreisn markaðarins í hættu
Vonir um viðsnúning á markaði fyrir fyrirtækjasamruna og fjárfestingaverkefni hafa dofnað verulega í ljósi þróunarinnar. Fjárfestar virðast nú einbeita sér að eignum með lægra áhættustig og með stöðugri ávöxtun.
Ef þessi þróun heldur áfram – og ef viðvarandi tollaaðgerðir, verðbólga eða aðrir efnahagslegir áföll valda áframhaldandi óvissu – gæti markaðurinn fyrir áhættufjármögnun haldið áfram að dragast saman með verulegum áhrifum á kaup-, samruna- og yfirtökumarkaðinn í heild.