Markaðurinn fyrir há­vaxta­skulda­bréf í Bandaríkjunum hefur nánast stöðvast eftir að Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, kynnti um­fangs­miklar tolla­að­gerðir fyrr í þessum mánuði.

Óvissan sem gripið hefur markaðinn í kjölfarið hefur leitt til al­gerrar biðstöðu í skulda­bréfaút­gáfu fyrir­tækja með lágt láns­hæfi og skert áhættuþol fjár­festa gagn­vart áhættu­samri fjár­mögnun.

Frá 2. apríl hefur ekkert nýtt skulda­bréf verið gefið út á bandaríska há­vaxta­markaðnum, sem metinn er á 1.400 milljarða dala, samkvæmt Financial Times.

Þetta kemur sér­stak­lega illa við fjár­festingafélög sem styðjast við þennan markað til að fjár­magna yfir­tökur og hefur einnig dregið veru­lega úr getu banka til að ráðast í fjár­mögnun sam­runa með skammtímalánum í þeirri von að hægt verði að selja skuldirnar áfram á skulda­bréfa­markaði.

„Það er allt í biðstöðu,“ segir Bob Kricheff, yfir­maður fjölþættra skulda­fjár­festinga hjá Shenk­man Capi­tal Mana­gement. „Enginn reynir að verð­setja út­gáfur í þessu um­hverfi.“

Yfir­töku­samningar í bið

Þessi þróun hefur haft bein áhrif á fjölda samninga sem nú hafa verið settir á ís, þar á meðal yfir­töku fjár­festingafélagsins HIG á Con­ver­ge Technology Sy­stems og kaup ABC Technologies, í eigu Apollo, á TI Fluid Sy­stems.

Bankar á borð við JP­Morgan, Citigroup og Morgan Stanl­ey hafa þurft að draga til baka boð um fjár­mögnun eða endur­skrifa lána­skilmála með hærri vöxtum til að verja sig gegn hugsan­legum útlánatöpum.

Fjár­festar hafa í auknum mæli flúið áhættu­samar fjár­festingar, og út­streymi úr há­vaxta­skulda­bréfa­sjóðum náði há­marki í vikunni eftir tolla­til­kynningu Trumps.

Sam­kvæmt ICE BofA-skulda­bréfa­vísitölunni hækkaði álag (e. credit spread) á há­vaxta­bréf í 4,61 pró­sentu­stig, hæsta gildi í nærri tvö ár, áður en það lækkaði lítil­lega eftir að for­setinn til­kynnti um 90 daga frest á af­námi tollanna.

Bankar sitja uppi með skuld­bindingar

Bankar sem hafa veitt skammtímalán með væntingum um að þau verði fjár­mögnuð til lengri tíma með skulda­bréfaút­gáfu, sitja nú uppi með skuld­bindingar sem ekki er auðvelt að losa sig við.

Jeff Ki­vitz, fjár­festinga­stjóri hjá Canyon Partners, segir að „fyrri skuld­bindingar kunni að festast á efna­hags­reikningum bankanna“ og að þeir séu „síður til­búnir að gefa út nýjar fjár­mögnunar­vilja­yfir­lýsingar við þessar markaðsaðstæður.“

Í sama streng hefur Gold­man Sachs hækkað spár sínar um greiðslu­fall hjá lág­hæfis­skuldurum. Gert er ráð fyrir að van­skil á há­vaxta­skulda­bréfum og skuld­settum yfir­tökulánum verði 5% og 8% á þessu ári, saman­borið við fyrri spár upp á 3% og 3,5%.

Einkalána­sjóðir taka við

Í til­felli Patient Square Capi­tal, sem hyggst yfir­taka fyrir­tækið Patter­son Companies, hafa hefðbundnir skulda­bréfa­fjár­festar ekki sýnt áhuga.

Citigroup hefur því þurft að leita til einkalána­sjóða (e. private credit funds) til að tryggja fjár­mögnun – sem þýðir al­mennt hærri vexti og lakari kjör fyrir skuldara.

Sam­tals hefur út­gáfa há­vaxta­skulda­bréfa og lána­samninga í apríl numið einungis 13 milljörðum dala, sem er vel undir meðaltali síðustu fjögurra ára (52,5 milljarðar dala), sam­kvæmt gögnum LSEG.

Endur­reisn markaðarins í hættu

Vonir um viðsnúning á markaði fyrir fyrir­tækja­sam­runa og fjár­festinga­verk­efni hafa dofnað veru­lega í ljósi þróunarinnar. Fjár­festar virðast nú ein­beita sér að eignum með lægra áhættu­stig og með stöðugri ávöxtun.

Ef þessi þróun heldur áfram – og ef viðvarandi tolla­að­gerðir, verðbólga eða aðrir efna­hags­legir áföll valda áfram­haldandi óvissu – gæti markaðurinn fyrir áhættu­fjár­mögnun haldið áfram að dragast saman með veru­legum áhrifum á kaup-, sam­runa- og yfir­töku­markaðinn í heild.