Áætlaður árlegur meðalrekstrarkostnaður á nemanda í grunnskóla hér á landi hækkaði um 1,1% á milli mánaða, frá desember 2024 til janúar 2025. Áætlaður meðalrekstrarkostnaður hækkaði úr 2.877.123 krónum á hvern grunnskólanema í 2.908.025 krónur. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Þegar horft er aftur til ársins 2020 hefur áætlaður kostnaður á hvern grunnskólanema aukist um 46% eða nærri eina milljón króna, úr tæplega tveimur milljónum króna í tæplega þrjár milljónir króna á verðlagi hvers árs. Sé miðað við verðlag dagsins í dag nemur hækkunin 8%.

Þrátt fyrir þetta hefur námsárangur íslenskra barna farið versnandi en eins og Viðskiptaráð hefur ítrekað bent á er árangur íslenskra grunnskóla í PISA sá næstslakasti í Evrópu.

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir vanda íslenska grunnskólakerfisins tvíþættan. Annars vegar sé árangur kerfisins sá næstlakasti í Evrópu þegar litið er til færni í lestri, reikningi og vísindum. Hins vegar sé kerfið óhagkvæmt í þeim skilningi að kostnaður á hvern nemanda er sá næsthæsti í Evrópu. „Þegar þetta tvennt er tekið saman þá skilar grunnskólakerfið okkar minnstu færni fyrir hverja krónu í Evrópu. Við höfum bent á leiðir til að bæta úr hvoru tveggja.“

Grunnskólamálin mestu vonbrigði stjórnarsáttmála

Björn kveðst ekki bjartsýnn á að nýr menntamálaráðherra og ríkisstjórn muni ráðast í aðgerðir sem séu til þess fallnar að bæta námsárangur en um leið að auka hagkvæmni í grunnskólakerfinu. „Það var ýmislegt jákvætt í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, en grunnskólamálin voru mestu vonbrigðin. Þar eru hvorki lagðar til breytingar til að bæta námsárangur né auka hagkvæmni grunnskólakerfisins. Þá vekja bakgrunnur og fyrstu ummæli Ásthildar Lóu Þórsdóttur, nýs menntamálaráðherra, ekki upp bjartsýni hjá mér. Hún sat í samninganefnd hjá Kennarasambandi Íslands frá 2018 til 2021, en lykilorsök þess að grunnskólakerfið er komið í ógöngur er að stefnumörkun hefur snúist um kjarabaráttu sambandsins frekar en þarfir nemenda.“

Björn bendir á að Ásthildur Lóa hafi í viðtali við Morgunblaðið rétt fyrir áramót sagt að fyrsta mál á dagskrá ætti að vera að bæta kjör kennara, sem hafi verið sviknir um kjarabætur, og að ólíklegt væri að samræmd próf verði tekin upp á ný. „Miðað við þessi ummæli hljómar nýr ráðherra ólíklegur til að bæta námsárangur eða auka hagkvæmni grunnskólakerfisins. Ég vona hins vegar að ég hafi rangt fyrir mér og við erum reiðubúin í samtal um nauðsynlegar aðgerðir líkt og við áttum við síðasta ráðherra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.