Áform forsætisráðherra um setningu heildarlaga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum með tilliti til þess hvort þær samræmist  þjóðaröryggi og allsherjarreglu hafa mætt verulegri gagnrýni. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa gert alvarlegar athugasemdir við áformin, sem skorti samhengi við gildandi rétt og mat á efnahagslegum áhrifum.

Jónas Már Torfason starfar sem lögfræðingur í Danmörku, þar sem sambærileg löggjöf og nú er áformuð á Íslandi var samþykkt síðasta sumar. Að sögn Jónasar Más er ekki alltaf skýrt hvenær löggjöfin á við, sem geti eftir atvikum haft áhrif á fjárfestingar.

„Í framkvæmd virkar þetta þannig að ef erlendur aðili ætlar að fjárfesta í fyrirtæki í viðkvæmum geira í Danmörku, til að mynda greiðsluþjónustu eða lyfjafyrirtæki, þarf danska viðskiptaeftirlitið að samþykkja fjárfestinguna. Það getur leitt til þess að fjárfestingin fáist ekki samþykkt og eftirlitið er þá beðið um að hætt sé við viðskiptin eða, í versta falli, að viðskiptunum sé rift,“ segir Jónas Már.

Jónas Már Torfason
Jónas Már Torfason

Hann telur þetta geta valdið vandræðum ef fara eigi í hlutafjáraukningu í fyrirtækjum með dreift eignarhald og í ljós komi að hluthafar falli undir löggjöfina. Þá vakni sú spurning hvort hætta þurfi við hlutafjáraukninguna.

„Það hefur almennt verið þannig að ef greitt hefur verið fyrir hlutafé er það ekki afturkræft. Það er því óljóst hvernig færi í tilfelli sem þessu – hvort hlutaféð yrði þá látið ganga til baka.“

Jónas Már telur það umhugsunarefni hvort löggjöfin þurfi að vera orðuð með skýrari hætti en áformin geri ráð fyrir. Þá þurfi að huga að því hvort þeim aðilum sem falið verði að meta hvort löggjöfin eigi við sé veitt of mikið svigrúm. „Ég hef orðið var við það í mínu starfi að fólk er oft í vafa um hvort löggjöfin eigi við eða ekki.“

Þá nefnir Jónas Már að hann geri ráð fyrir að fjöldi fyrirtækja í Kauphöllinni á Íslandi gæti fallið undir gildissvið laganna – allt frá bönkunum, sem hljóti allir að falla þarna undir, til flutnings- og sjávarútvegsfyrirtækja.

„Ég tel mikilvægt að svar fáist við spurningunni um hvernig farið verði með þau fyrirtæki sem eru nú þegar í erlendri eigu. Mun löggjöfin hafa áhrif á stöðuna afturvirkt eða verður eingöngu horft fram á við frá gildistöku laganna?“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.