Vogunarsjóðurinn Elliott Management hefur byggt upp stöðu í breska olíurisanum BP og hefur í hyggju að þrýsta á að fá í gegn umbreytingar til að bæta afkomu, að því er heimildir Wall Street Journal herma. ogunarsjóðurinn Elliott Management hefur byggt upp stöðu í breska olíurisanum BP og hefur í hyggju að þrýsta á að fá í gegn umbreytingar til að bæta afkomu, að því er heimildir Wall Street Journal herma.
Bandaríski vogunarsjóðurinn, sem er með um 70 milljarða dala í stýringu, er einn áhrifamesti fjárfestirinn á Wall Street. Sjóðurinn er m.a. þekktur fyrir að þrýsta á fyrirtæki til að reka stjórnendur, skipta upp og selja frá sér rekstrareiningar, til að stuðla að aukinni arðsemi fyrir hluthafa.
Ekki liggur fyrir hver stærð hlutar Elliott í BP er eftir viðskiptin. Heimildir WSJ herma jafnframt að Elliott hafi hvatt BP til að íhuga róttækari aðgerðir en fyrirtækið hefur gripið til hingað til til að freista þess að reksturinn nái fyrri hæðum.
Stefna breska olíufyrirtækisins hefur verið sveiflast eins og lauf í vindi á undanförnum árum. Fyrir fimm árum sneri fyrirtækið frá hefðbundinni olíu- og gasstarfsemi sinni og lagði áherslu á orkuverkefni með lægra kolefnisspor, eins og vind- og sólarorku og hleðslustöðvar fyrir rafbíla.