Gengi ís­lensku krónunnar hefur undan­farið styrkst gagn­vart helstu gjald­miðlum, einkum Bandaríkja­dal, eftir að hafa veikst tíma­bundið í upp­hafi árs.

Á sex mánaða tíma­bili hefur dalurinn veikst um 7,66% gagn­vart krónunni og farið úr 138,39 krónum niður í 127,8 krónur. Gengi evrunnar gagn­vart krónu hefur á sama tíma haldist nær óbreytt og stendur nú í 145,00 krónum, eða 0,07% lægra en í desember síðastliðnum.

Þróun gengisins hefur verið undir áhrifum af marg­vís­legum þáttum, þar á meðal minnkandi gjald­eyris­kaupum líf­eyris­sjóða sem rekja má til upp­gjörs ÍL-sjóðs, fjár­magns­inn­flæði vegna er­lendra kaupa á verðbréfum og beinum inn­gripum Seðla­banka Ís­lands.

Í nýaf­stöðnu út­boði ríkisins á eignar­hlut sínum í Ís­lands­banka seldi ríkis­sjóður 45,2% hlut í bankanum fyrir um 90,6 milljarða króna. Um 31 þúsund al­mennir fjár­festar fengu út­hlutað bréfum í til­boðs­bók A, þar sem þeir höfðu for­gang fram yfir fag­fjár­festa.

Stærstur hluti inn­lendra og er­lendra fag­fjár­festa, sem skiluðu inn til­boðum í B- og C-bækur út­boðsins, fengu lítið sem ekkert í sinn hlut.

Er­lendir fjár­festar hafa þó sótt af krafti í bréf Ís­lands­banka á eftir­markaði dagana eftir út­boðið.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá verðbréfa­miðlurum sem Inn­herji hefur undir höndum hafa er­lendir fjár­festinga­sjóðir þegar keypt sam­tals um 50 milljónir hluta, aðal­lega í gegnum bandaríska bankann JP Morgan.

Það jafn­gildir um sex milljörðum króna að markaðsvirði og rúm­lega 4% eignar­hlut í bankanum.

Slík við­skipti kalla á eftir­spurn eftir krónum, þar sem er­lendir aðilar þurfa að skipta yfir í inn­lendan gjadeyri.

Á sama tíma hafa líf­eyris­sjóðir keypt mun minna af er­lendum gjald­eyri það sem af er ári en undan­farin ár.

Sam­kvæmt tölum Seðla­bankans hafa sjóðirnir aðeins keypt gjald­eyri fyrir um 20 milljarða króna fyrstu fjóra mánuði ársins, sem er um fjórðungur þess sem þeir keyptu á sama tíma árin 2023 og 2022.

Ein ástæða þess er yfir­taka bandaríska félagsins John Bean Technologies á Marel í janúar, þar sem líf­eyris­sjóðir fengu að hluta greitt í er­lendum gjald­eyri.

Lífeyrissjóðirnir eiga einnig von á evrum að andvirði 55 milljarða króna þegar kemur að uppgjöri HFF-bréfa ÍL-sjóðs, sem mun draga úr gjaldeyriseftirspurn sjóðanna.

Þessir tveir þættir, inn­flæði vegna er­lendra fjár­festinga og minni út­flæði vegna tak­markaðra gjald­eyris­við­skipta líf­eyris­sjóða, hafa saman dregið úr þrýstingi á krónuna og stuðlað að styrkingu hennar.

Til viðbótar hefur Seðla­bankinn gripið til að­gerða til að auka stöðug­leika á gjald­eyris­markaði.

Bankinn hefur tvisvar sinnum í mars og einu sinni í apríl keypt gjald­eyri í beinum við­skiptum fyrir sam­tals 6,3 milljarða króna og hóf í apríl reglu­bundin gjald­eyris­kaup með það að mark­miði að styrkja forðann, sem hafði minnkað í heims­far­aldrinum.

Forðinn jafnframt minnkar í kjölfar útgreiðslu gjaldeyris vegna fyrrnefndra slita ÍL-sjóðs.

Þrátt fyrir þetta hefur verið tals­vert út­flæði vegna greiðslu­korta­notkunar lands­manna er­lendis á fyrstu fjórum mánuðum ársins, meira en á sama tíma í fyrra.

Hins vegar hefur dregið úr fram­virkri stöðutöku með krónunni, sem bendir til þess að fjár­festar telji ólík­legt að gengi krónunnar hækki mikið frekar til skemmri tíma.

Úr Peningamálum Seðlabanka Íslands.
Úr Peningamálum Seðlabanka Íslands.
© Skjáskot (Skjáskot)

Seðla­bankinn telur að mikill óstöðug­leiki á alþjóð­legum fjár­málamörkuðum hafi áhrif á fjár­festingarákvarðanir líf­eyris­sjóða, sem kunna að bíða með frekari fjár­festingar er­lendis, og það styrkir stöðu krónunnar tíma­bundið.

Hins vegar er óvíst hvort þessi þróun haldi áfram, þar sem hún er háð ytri þáttum eins og vaxta­stigi, alþjóð­legri áhættu og inn­lendri neyslu­hegðun.