Gengi íslensku krónunnar hefur undanfarið styrkst gagnvart helstu gjaldmiðlum, einkum Bandaríkjadal, eftir að hafa veikst tímabundið í upphafi árs.
Á sex mánaða tímabili hefur dalurinn veikst um 7,66% gagnvart krónunni og farið úr 138,39 krónum niður í 127,8 krónur. Gengi evrunnar gagnvart krónu hefur á sama tíma haldist nær óbreytt og stendur nú í 145,00 krónum, eða 0,07% lægra en í desember síðastliðnum.
Þróun gengisins hefur verið undir áhrifum af margvíslegum þáttum, þar á meðal minnkandi gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða sem rekja má til uppgjörs ÍL-sjóðs, fjármagnsinnflæði vegna erlendra kaupa á verðbréfum og beinum inngripum Seðlabanka Íslands.
Í nýafstöðnu útboði ríkisins á eignarhlut sínum í Íslandsbanka seldi ríkissjóður 45,2% hlut í bankanum fyrir um 90,6 milljarða króna. Um 31 þúsund almennir fjárfestar fengu úthlutað bréfum í tilboðsbók A, þar sem þeir höfðu forgang fram yfir fagfjárfesta.
Stærstur hluti innlendra og erlendra fagfjárfesta, sem skiluðu inn tilboðum í B- og C-bækur útboðsins, fengu lítið sem ekkert í sinn hlut.
Erlendir fjárfestar hafa þó sótt af krafti í bréf Íslandsbanka á eftirmarkaði dagana eftir útboðið.
Samkvæmt upplýsingum frá verðbréfamiðlurum sem Innherji hefur undir höndum hafa erlendir fjárfestingasjóðir þegar keypt samtals um 50 milljónir hluta, aðallega í gegnum bandaríska bankann JP Morgan.
Það jafngildir um sex milljörðum króna að markaðsvirði og rúmlega 4% eignarhlut í bankanum.
Slík viðskipti kalla á eftirspurn eftir krónum, þar sem erlendir aðilar þurfa að skipta yfir í innlendan gjadeyri.
Á sama tíma hafa lífeyrissjóðir keypt mun minna af erlendum gjaldeyri það sem af er ári en undanfarin ár.
Samkvæmt tölum Seðlabankans hafa sjóðirnir aðeins keypt gjaldeyri fyrir um 20 milljarða króna fyrstu fjóra mánuði ársins, sem er um fjórðungur þess sem þeir keyptu á sama tíma árin 2023 og 2022.
Ein ástæða þess er yfirtaka bandaríska félagsins John Bean Technologies á Marel í janúar, þar sem lífeyrissjóðir fengu að hluta greitt í erlendum gjaldeyri.
Lífeyrissjóðirnir eiga einnig von á evrum að andvirði 55 milljarða króna þegar kemur að uppgjöri HFF-bréfa ÍL-sjóðs, sem mun draga úr gjaldeyriseftirspurn sjóðanna.
Þessir tveir þættir, innflæði vegna erlendra fjárfestinga og minni útflæði vegna takmarkaðra gjaldeyrisviðskipta lífeyrissjóða, hafa saman dregið úr þrýstingi á krónuna og stuðlað að styrkingu hennar.
Til viðbótar hefur Seðlabankinn gripið til aðgerða til að auka stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.
Bankinn hefur tvisvar sinnum í mars og einu sinni í apríl keypt gjaldeyri í beinum viðskiptum fyrir samtals 6,3 milljarða króna og hóf í apríl reglubundin gjaldeyriskaup með það að markmiði að styrkja forðann, sem hafði minnkað í heimsfaraldrinum.
Forðinn jafnframt minnkar í kjölfar útgreiðslu gjaldeyris vegna fyrrnefndra slita ÍL-sjóðs.
Þrátt fyrir þetta hefur verið talsvert útflæði vegna greiðslukortanotkunar landsmanna erlendis á fyrstu fjórum mánuðum ársins, meira en á sama tíma í fyrra.
Hins vegar hefur dregið úr framvirkri stöðutöku með krónunni, sem bendir til þess að fjárfestar telji ólíklegt að gengi krónunnar hækki mikið frekar til skemmri tíma.

© Skjáskot (Skjáskot)
Seðlabankinn telur að mikill óstöðugleiki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi áhrif á fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóða, sem kunna að bíða með frekari fjárfestingar erlendis, og það styrkir stöðu krónunnar tímabundið.
Hins vegar er óvíst hvort þessi þróun haldi áfram, þar sem hún er háð ytri þáttum eins og vaxtastigi, alþjóðlegri áhættu og innlendri neysluhegðun.