Snorri Jakobs­son, eig­andi Jakobs­son Capi­tal, segir stýri­vaxta­hækkun Seðla­bankans í dag ekki hafa mikil á­hrif á hluta­bréfa­markaðinn þar sem á­hrifin af vaxta­hækkunum séu nú að stærstum hluta þegar komin fram.

„Ég held þetta breyti svo sem voða­lega litlu. Um leið og stýri­vextirnir eru farnir yfir fimm til sjö prósent þá byrja þeir að hafa um­tals­verð á­hrif á hluta­bréfa­markaðinn,“ segir Snorri.

„Það fer auð­vitað eftir því hvað verð­bólgu­stigið er en al­mennt er það þannig um leið og vextir eru farnir yfir fimm til sjö prósent þá eru þeir farnir að draga peninga úr hluta­bréfa­sjóðum.“

Peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands hækkaði stýri­vexti bankans um 0,5 prósentu­stig. Megin­vextir bankans, vextir á sjö daga bundnum inn­lánum, urðu því 9,25%.

Hefur ekki bara áhrif á almenning

Að hans mati höfðu þannig síðustu tvær vaxta­hækkanir meiri á­hrif á markaðinn en með hærri vöxtum geta peninga­markaðs­sjóðir og skulda­bréf orðið á­lit­legri fjár­festing.

„Auð­vitað hefur þetta á­hrif og ekki bara á al­menning. Þetta eru líka trygginga­fé­lög og líf­eyris­sjóðir. Þeir meta það svo að það sé betra að vera í skulda­bréfum frekar en hluta­bréfum,“ segir Snorri og bætir við að það sé miður hvað þátt­taka al­mennings á hluta­bréfa­markaði sé lítil.

„Þessi fimm­tíu punkta hækkun hefur ekki haft mikil á­hrif en þessar tvær vaxta­hækkanir á undan voru auð­vitað mjög nei­kvæðar fyrir markaðinn. Á­hrifin á eigna­markaði voru komin fram eftir síðustu tvær hækkanir. Auð­vitað er þetta ekki góð frétt en ég held að hinar tvær vaxta­hækkanirnar hafi verið miklu verri. Úr því sem komið er breytir þetta ekki voða­lega miklu,“ segir Snorri.

„Skiptir miklu máli að horfa líka til ný­legra vís­bendinga“

Snorri segir Seðla­bankann hafa áttað sig of seint á stöðunni á eigna­mörkuðum og einka­neyslu þjóðarinnar og því þurfi að grípa fastar í taumana núna.

„Fyrir tveimur árum síðan of­spáði ég alltaf vaxta­hækkunum og núna er ég að van­spá þeim. Fyrir tveimur árum síðan var eins og Seðla­bankinn áttaði sig ekki á hvað var að gerast á eigna­mörkum eða hversu hratt einka­neysla var að taka við sér. Þessar tölur birtast seint í hag­tölum en fljótt í árs­hluta­reikningum og mánaðar­upp­gjörum fyrir­tækja sem hag­tölurnar eru svo aftur unnar upp úr. Það tekur sex til á­tján mánuði fyrir stýri­vaxta­hækkanir að koma fram,“ segir Snorri.

„Ís­land er einn hundraðasti af meðal Evrópu­ríkja. Hlutirnir gerast hraðar hér og sveiflurnar eru meiri en í ná­granna­löndunum þar sem hag­kerfin eru seig­fljótandi og breytast hægar. Þess vegna skiptir miklu máli að horfa líka til ný­legra vís­bendinga og á rekstrar­hag­fræði­hliðina (micro) eins og þjóð­hag­fræði­hliðina (macro),“ segir Snorri að lokum.