Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital, segir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag ekki hafa mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn þar sem áhrifin af vaxtahækkunum séu nú að stærstum hluta þegar komin fram.
„Ég held þetta breyti svo sem voðalega litlu. Um leið og stýrivextirnir eru farnir yfir fimm til sjö prósent þá byrja þeir að hafa umtalsverð áhrif á hlutabréfamarkaðinn,“ segir Snorri.
„Það fer auðvitað eftir því hvað verðbólgustigið er en almennt er það þannig um leið og vextir eru farnir yfir fimm til sjö prósent þá eru þeir farnir að draga peninga úr hlutabréfasjóðum.“
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, urðu því 9,25%.
Hefur ekki bara áhrif á almenning
Að hans mati höfðu þannig síðustu tvær vaxtahækkanir meiri áhrif á markaðinn en með hærri vöxtum geta peningamarkaðssjóðir og skuldabréf orðið álitlegri fjárfesting.
„Auðvitað hefur þetta áhrif og ekki bara á almenning. Þetta eru líka tryggingafélög og lífeyrissjóðir. Þeir meta það svo að það sé betra að vera í skuldabréfum frekar en hlutabréfum,“ segir Snorri og bætir við að það sé miður hvað þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði sé lítil.
„Þessi fimmtíu punkta hækkun hefur ekki haft mikil áhrif en þessar tvær vaxtahækkanir á undan voru auðvitað mjög neikvæðar fyrir markaðinn. Áhrifin á eignamarkaði voru komin fram eftir síðustu tvær hækkanir. Auðvitað er þetta ekki góð frétt en ég held að hinar tvær vaxtahækkanirnar hafi verið miklu verri. Úr því sem komið er breytir þetta ekki voðalega miklu,“ segir Snorri.
„Skiptir miklu máli að horfa líka til nýlegra vísbendinga“
Snorri segir Seðlabankann hafa áttað sig of seint á stöðunni á eignamörkuðum og einkaneyslu þjóðarinnar og því þurfi að grípa fastar í taumana núna.
„Fyrir tveimur árum síðan ofspáði ég alltaf vaxtahækkunum og núna er ég að vanspá þeim. Fyrir tveimur árum síðan var eins og Seðlabankinn áttaði sig ekki á hvað var að gerast á eignamörkum eða hversu hratt einkaneysla var að taka við sér. Þessar tölur birtast seint í hagtölum en fljótt í árshlutareikningum og mánaðaruppgjörum fyrirtækja sem hagtölurnar eru svo aftur unnar upp úr. Það tekur sex til átján mánuði fyrir stýrivaxtahækkanir að koma fram,“ segir Snorri.
„Ísland er einn hundraðasti af meðal Evrópuríkja. Hlutirnir gerast hraðar hér og sveiflurnar eru meiri en í nágrannalöndunum þar sem hagkerfin eru seigfljótandi og breytast hægar. Þess vegna skiptir miklu máli að horfa líka til nýlegra vísbendinga og á rekstrarhagfræðihliðina (micro) eins og þjóðhagfræðihliðina (macro),“ segir Snorri að lokum.