Fyrir nokkrum árum síðan voru fjár­festar æstir í fjár­festinga­sjóði sem byggja á tengslum við um­hverfis­mál, fé­lags­lega þætti og stjórnar­hætti eða UFS á ís­lensku og ESG á ensku.

Nú er staðan önnur en sam­kvæmt The Wall Street Journal er verið að loka fjöl­mörgum slíkum sjóðum eða breyta nöfnum þeirra eftir slæma á­vöxtun síðast­liðinn ár.

Fjár­festar hafa verið að leysa út úr sjóðunum í Massa­vís sam­kvæmt WSJ en búið er að taka út 14 milljarða Banda­ríkja­dala úr ESG- sjóðum bara á þessu ári sem sam­svarar ríf­lega 1.960 milljörðum ís­lenskra króna.

Í­þyngjandi reglu­verk og háir vextir eru sagðir hafa haft slæm á­hrif á hluta­bréf um­hverfis­vænna orku­fyrir­tækja.

ESG- fjár­festinga­stefnan hefur einnig fengið óorð á sig víðs vegar í Banda­ríkjunum. Í febrúar á þessu ári var stofnaður milljóna dala sjóður til að fara í her­ferð gegn slíkri fjár­festinga­stefnu eða það sem sjóðurinn kallar „Woke-capital­ism“.

Á þriðja árs­fjórðungi þessa árs var í fyrsta sinn sem fleiri ESG-sjóðir voru leystir upp en voru stofnaðir sam­kvæmt Morningstar.

Sem dæmi slengdi fjár­festinga­ráð­gjafar­fyrir­tækið Hart­ford Fund orðinu sjálf­bærni við einn sjóð sinn og fékk í kjöl­farið 100 milljón dala inn í sjóðinn. Eftir dræma á­vöxtun síðast­liðið ár hefur fé­lagið á­kveðið að breyta um stefnu sem og nafninu á sjóðnum.