Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í vikunni hafa sektarfjárhæðir á íslensk fjármálafyrirtæki verið mun hærri hérlendis en þekkist í Evrópu síðastliðinn ár.

Aðspurð segir Jóna Björk Guðnadóttir, yfirlögfræðingur SFF, að það sé afar mikilvægt að íslenskur fjármálamarkaður starfi við bæði sambærilegt regluverk og starfsumhverfi og tíðkast í Evrópu.

„Það er áhyggjuefni ef sektarfjárhæðir á fjármálamarkaði hér á landi eru hlutfallslega hærri en það sem tíðkast almennt í Evrópu. Þá er ávallt mikilvægt að eftirlitsaðilar gæti meðalhófs þegar kemur að því að beita viðurlögum. Það kann einnig verið ástæða til að skoða hvort þyngri sektarheimildir hafi verið lögfestar hér á landi en tíðkast í nágrannaríkjunum,” segir Jóna Björk.

Íslensk fjármálafyrirtæki greiddu 11% af af heildarsektarfjárhæðum á EES-svæðinu í fyrra Samkvæmt skýrslu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA).

Íbúafjöldi Íslands er innan við 0,1% af íbúafjölda svæðisins.

„Í því samhengi vekur athygli að ESMA tiltaki að þörf sé á að samræma hvernig viðurlögum sé beitt af hálfu fjármálaeftirlitsstofnana á EES-svæðinu. Eðlilegt er að Fjármálaeftirlitið taki til sérstakrar skoðunar hvað skýri þau atriði sem fram koma í skýrslu ESMA.”

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir að þessi stefna eftirlitsstofnana sé skaðleg fyrir íslenskt efnahagslíf og komi í veg fyrir nýsköpun.

Hægt er að lesa ítarlegri umfjöllun um málið hér.