Airbnb hefur sett aukið fjármagn í markaðssetningu og ráðningar þar sem félagið undirbýr sig fyrir að kynna til leiks nýjar tekjustoðir í maí, sem ætlað er að tryggja að tekjur komi úr fleiri áttum en einungis frá skammtímaútleigu.
Airbnb, sem rekur markaðstorg fyrir skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði, tilkynnti í febrúar sl. að það áformi að fjárfesta 200 til 250 milljónum dala á þessu ári í þessar nýju tekjustoðir, með það að markmiði að ná að skapa að lokum einn milljarð dala í tekjur af þeim á ársgrundvelli.
Tekjur Airbnb námu 11,1 milljarði dala á síðasta ári, sem var aukning um 12% frá árinu áður.
Félagið hefur ekki gefið upp hvers konar starfsemi það ætli að hefja til að skapa auknar tekjur, né einstaka áherslur þeirra. Það hefur þó sagt að það áformi að endurvekja upplifanatengda þjónustu sína, til að bæta ferðalög notenda sinna enn frekar með ýmsum viðburðum, svo sem hjólaferðum og öðru slíku.
Airbnb hóf að bjóða takmarkað úrval upplifana árið 2016 en lagði þær að mestu til hliðar þegar heimsfaraldurinn skall á árið 2020.